Sunday, September 16, 2007

Nú haustar að

Þá er veturinn farinn að minna á sig. Hvítur kollur á Esjunni og Hengillinn og Bláfjöllin hvít. Það snjóaði á Hellisheiði í gær þótt það rigndi duglega hér niðri í byggð. Vikan var tíðindalítil, engin stórafrek, bara unnið og sofið. Við vorum heima um helgina, þrif og þvottar tóku mestan tíma og smáprjónaskapur. Við Maggý skruppum á flóamarkað hjá líknarfélaginu Bergmáli en þar stóð Kolla frænka galvösk og seldi geymsludót frá Eddu Björgvins. Ég fjárfesti í heilli flugstöð sem Gísli Rúnar hafði eignast sem barn og nú er bara að ákveða hvort ég hef herlegheitin hér heima eða leyfi skjólstæðingum mínum í Engjaskóla að leika sér að þeim. Eftir flóamarkaðinn fórum við Brandur í Skorradalinn og gegnum frá fyrir veturinn, ísskápurinn tæmdur og vatnið tekið af. Það er því ekki hætta á að það verði frostskemmdir þar á næstunni.
Það var ansi kalt að koma í kotið, 5° hiti og þótt ég færi í ullarhempuna frá Álafossi þá náði ég ekki upp hita meðan við stoppuðum þar. Ég held að mér hafi ekki orðið kalt síðan í fyrravetur, þetta er búið að vera svo frábært sumar. En hér í Grýtubakkanum er vel heitt og mér er því farið að hlýna aftur innvortis. Nú er bara að gera sig kláran fyrir næstu vinnuviku, andlega sem líkamlega og muna að takast á við allt með jákvæðu hugarfari. Bara að muna að syngja hástöfum alla leið í vinnuna og koma sér í gott skap.

Sunday, September 9, 2007

Skorradalur

Við fórum í kotið okkar um helgina, nærri mánuður síðan við vorum þar síðast og gott að komast í frið og ró. Það rigndi hraustlega á laugardaginn og notalegt að heyra regnið dynja á þakinu. Í dag var aftur á móti yndislegt veður, logn og hlýtt. Við tókum upp kartöflur, fengum líklega svipað upp eins og við settum niður en gaman að því samt. Við tíndum líka slatta af hrútaberjum og nú er búið að sulta og leggja í jólavínið.
Vikan sem leið var ólíkt slakari en sú þar á undan. Skipulag komið á og stressið að minnka. Maggý leið vel þessa viku og á föstudagskvöldið var matarboð hjá Siggu því það er nauðsynlegt að hafa eitthvað til að hlakka til meðan meðferðin stendur yfir. Við enduðum á Kringlukránni en ég var ekki í miklu stuði, músíkin ekki dansvæn að mínu mati og fórum við því snemma heim. Maggý fer á morgun í annað sinn og vonandi verður hún hressari núna en síðast.
Brandur kom í land á fimmtudagskvöldið og þar sem ég var að passa Jökul fékk hann að koma með og hann var yfir sig glaður að fá að sjá skipið hans afa og mátti ég hafa mig alla við að halda í við hann á hlaupum um skipið. Hann er orðinn frár á fæti sá litli sem nálgast nú 3ja ára afmælisdaginn sinn. Úff hvað tíminn er fljótur að líða. Það er eins gott að njóta líðandi stundar og geyma ekki til morguns það sem maður hefði getað gert í gær.
Snædís er byrjuð í hjúkrunarnáminu og hæstánægð, fór í nýnemaferð á föstudaginn og kom heim niðurrignd úr Heiðmörkinni. Örvar Andri fór norður þriðju helgina í röð svo ekki þvælist hann mikið fyrir okkur um helgar. Sennilega finnst honum gott að losna við gamla settið og tuðið.
Þá er bara að setja sig í stellingar fyrir næstu vinnuviku og muna að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi og syngja hástöfum á leið í vinnuna eins og Edda Björgvins sagði okkur að gera en hún hélt fyrirlestur í Engjaskóla á þriðjudaginn um það hvernig við gætum þjálfað okkur í að vera skemmtileg og kát. Ég söng hástöfum með Ragga Bjarna alla leiðina morguninn eftir og þann næsta líka og ég er ekki frá því að þetta virki. Reyni aftur á morgun.

Sunday, September 2, 2007

Afmæli hjá Daníellu

Ég hef bara verið dugleg í dag, vaknaði snemma og dundaði mér við að búa til hveitiblöðrur fyrir nemendur mína. Þeim finnst róandi að hafa þá í hendinni þegar þeir eru eitthvað stressaðir. Sennilega þarf ég líka á því að halda miðað við hvernig síðasta vika var í nýja starfinu. en vonandi verður næsta vika rólegri, skipulagið svona nokkurn veginn komið í lag.Því næst fór ég niður í geymslu og tók til þar, fyllti bílinn af drasli, flokkuðum dósum og flöskum og renndi með það í sorpu. Ég held svei mér þá að ég sé duglegri síðan ég byrjaði á þessu bloggi því eitthvað verður maður að hafa að segja.Eftir tiltektina fór ég til Maggýjar og við skunduðum í Ikea til að kaupa kommóðu fyrir Magna en hann er að byrja í Lögregluskólanum á morgun. Við komum klyfjaðar úr Ikea af ýmsu dóti sem við ætluðum ekki að kaupa en var allt hið mesta þarfaþing nema það sem ég þarf að skila aftur á morgun þar sem það passaði ekki.Því næst lá leiðin til Keflavíkur en þar var verið að halda upp á afmælið hennar Daníellu en hún átti reyndar afmæli 5. ágúst og þá vorum við á Siglufirði og héldum upp á það þar með stjúpfjölskyldunni. Það var glatt á hjalla í Heiðarbólinu og mér tókst að kenna Jökli að klippa og nú er spurning hvort mér verður þakkað það ef hann klippir kannski eitthvað annað en hann má klippa.Ég tók svo Viktoríu með mér í bæinn og setti hana upp í rútu til Stokkseyrar og fór svo heim bara nokkuð ánægð með afköst helgarinnar. Snædís var komin heim heilu og höldnu eftir ánægjulega ferð í Vestur - Hópið en stjúpbarnabarnið er ekki enn farið að láta sjá sig úr Siglufjarðarheimsókninni. en vonandi skilar hann sér.Veðrið var frábært í dag, sólskin og 14 stiga hiti svo haustið er ekki alveg brostið á ennþá eins og ég hélt í gær. Og nú er bara að horfa með bjartsýni til komandi vinnuviku.

Saturday, September 1, 2007

1. september

Það hefur verið nóg að gera þessa viku eins og þá síðustu. Enginn tími til að láta sér leiðast.
Ég vona að nú sé búið að sníða flesta vankanta af í skólanum og flestar stundatöflur komnar í lag. Fólk skrifaði undir vinnuskýrslur í gær svo vonandi eru allar breytingar yfirstaðnar. Ég er vonandi að komast inn í nýja starfið, búin að þreyta frumraun í að standa upp á starfsmannafundi og lifði það af. Varð auðvitað eldrauð í framan en hugsaði bara hvað það væri gott til varnar hrukkumyndun og sýnir að ég er ekki dauð úr öllum æðum. Í gærkvöldi var partý til að hrista hópinn saman fyrir veturinn en ég var alveg búin á því og fannst ég bara þurfa næði til að leggjast fyrir framan sjónvarpið semég og gerði.
Seinnipart dags hef ég svo farið til Maggýjar sem var furðu brött daginn eftir lyfjagjöfina, fölsk orka vegna steranna, en var svo mjög slæm miðvikudag og fimmtudag. Í gær var hún svo miklu brattari og við fórum í Rúmfatalagerinn til að kaupa nýja rúllugardínu og fleira og síðan fórum við í matvörubúð og hún gat keypt eitthvða sem hana langaði til að borða svo þetta er allt að koma í bili. Sem betur fer fer hún á tveggja vikna fresti fyrstu 3 skiptin svo hún fær lengri tíma til að jafna sig á milli svona fyrst. Stella og Haddi komu með Magna á þriðjudaginn svo hún hefur haft fullt af fólki í kringum sig. Magni fékk inngöngu í Lögregluskólann í gær svo hann verður hér til áramóta en hann tók sér frí frá körfuboltanum í Hólminum til að geta verið til staðar fyrir mömmu sína meðan þetta gengur yfir. Við kláruðum að taka það sem eftir var í Rjúpufellinu á fimmtudag svo nú er það frá og tilheyrir fortíðinni og bara horft til framtíðar.
Snædís og Fannar fóru norður í sveitina til ömmu hans Fannars í gærkvöldi og verða þar um helgina og Örvar fór norður á Siglufjörð svo það er rúmt um okkur Púka núna en frekar dauflegt. Brandur er kominn eitthvað norður í haf, búinn að draga Bjarna Sæm til Akureyrar en hann missti stýrið í upphafi vikunnar og var dreginn til Ísafjarðar. Þeir á Árna þurftu því að stökkva óvænt út á sjó til að klára verkefnið þeirra.
Spilaklúbburinn hittist heima hjá Önnu Margréti á miðvikudaginn, alltaf jafngaman og gott að hittast og spila og borða saman, gefur lífinu lit. Ég hvorki vann né tapaði, var í miðjumoðinu eins og við köllum það. En það er gott að geta hist og spjallað og hlegið hver að annarri og gleymt okkur smástund.