Sunday, December 27, 2009

Jóladagur

Kalkúnninn var orðinn dálítið þreyttur á því að dvelja aðeins of lengi í ofninum en annars var þetta ágætt.
Við spiluðum Alias, tímavörðurinn var orðinn dálítið þreyttur að fylgjast með stundaglasinu.

Jói og Jökull tóku létt dansspor.
Á jóladag komu Jói, Guðrún, Daníella, Jökull og Nonni í mat. Jói þurfti fyrst að keyra Viktoríu á Stokkseyri svo honum seinkaði aðeins. Kalkúnninn sem fór inn í ofn um tíuleytið var því orðinn heldur þurr á manninn að bíða eftir gestunum. Eftir matinn spiluðum við Alias sem reyndi töluvert á heilann hjá okkur þessum gömlu. Bráðskemmtilegt samt þrátt fyrir tap.
Annar í jólum var slökunardagur eftir veisluhöld síðustu þriggja daga. Við Brandur fórum í göngutúr um Elliðaárdalinn og enduðum í kaffi og smákökum í Byggðarenda hjá Önnu og Þórarni. Gengum síðan heim aftur í rökkrinu og ég brunaði upp brekkuna án þess að stoppa og kom sjálfri mér og Brandi virkilega á óvart. Kannski er ég orðin svona orkumikil eftir allt átið síðustu daga, nóg til að brenna.
Við elduðum síðan jólasviðin hans Brands og la´gum svo á meltunni það sem eftir lifði kvölds.

Saturday, December 26, 2009

100 ára afmæli pabba á jóladag


Jóladagur 25. desember 2009
Í dag eru 100 ár síðan pabbi minn, Karl Magnússon, fæddist í Fossárdal í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Afi minn og amma, þau Magnús Árnason og Ingveldur Lárusdóttir, fluttu síðan að Knerri í Breiðuvík og þar bjuggu þau til dauðadags og einnig pabbi og mamma en þau tóku við búinu þegar afi var orðinn það veikur að hann gat ekki lengur séð um það. Þá voru mamma og pabbi búsett í Reykjavík en þar fæddist Stella en hún var sú eina af okkur systkinum sem fæddist á sjúkrahúsi. Um sumarið fluttu þau að Knerri og þá var ráðist í að byggja steinhús og þar sem þurfti að nýta allt sem hægt var úr gamla torfbænum bjuggu þau í fjárhúsinu á meðan húsið var að komast upp. Stella segist því eiga það sammerkt með Jesúbarninu að hafa verið lögð í jötu.
Mamma, Halldóra Guðrún Jónsdóttir, var í vist á Akureyri hjá Jónatani Marteini skósmið og konu hans Guðnýju og passaði meðal annars þeirra einu dóttur Huldu sem síðar stofnaði JMJ með sínum manni en tengdasonur hennar og dóttir reka þá búð í dag.
Systir mömmu, Eiríka, bjó þá á Búðum og ákvað mamma að fara að heimsækja hana í tvær vikur og fór með skipi suður og var sett í land á Arnarstapa. Þar fékk hún hest og fylgdarmann að Búðum. Á leiðinni fóru þau fram hjá flokki manna sem var við vegagerð. Þar var Karl faðir minn að verki og leist vel á þessa ungu aðkomukomu og ákvað að láta hana ekki sleppa í burtu aftur. Það fór því þannig að tveggja vikna dvölin varð að eilífðarbúsetu í Breiðuvíkinni og hún fór aldrei aftur norður til Akureyrar.
Þau byrjuðu samt búskap í Reykjavík á Öldugötunni en pabbi vann hjá Kveldúlfi og ætlaði sér aldrei að verða bóndi í sveit. Það fór þó þannig að þegar afi var orðinn veikur og pabbi eina barnið, að hann fékk mömmu í lið með sér að fá hann til að taka við búinu og þau fluttu vestur.
Pabbi var oddviti sveitarinnar í fjölda ára og það var víst honum meira hugðarefni en búskapurinn að vasast í þeim málum. Mamma var búhneigðari og vissi ekkert skemmtilegra en að fá að vinna úti við búverkin. Hennar hlutskipti var þó að standa yfir pottum og pönnum meiri hluta dagsins, fara fyrst á fætur á morgnana og hita upp í kolavélinni svo það væri farið að hlýna þegar hinir skriðu framúr. Hún fór líka síðust í rúmið og hélt því til dauðadags að geta aldrei farið að sofa meðan einhverjir voru á fótum. Meðan börnin voru lítil, en við vorum fimm systkinin, saumaði hún á okkur fötin á nóttunni því þá var friður og öll fallegu fötin sem hún átti þegar hún kom í sveitina urðu að sparifötum á okkur systkinin. Síðustu kjólana hennar notaði ég til að sauma upp úr á mig árshátíðarkjóla í Kennó.
Amma og afi bjuggu á loftinu en afi dó þegar ég var fjögurra ára og amma þegar ég var þrettán ára. Ég man lítið eftir afa en man þó að hann smíðaði handa mér litla hrífu svo ég gæti rifjað með honum flekkina. Ein minningin er að hann hafi gefið mér rauð stígvél en mamma sagði að það hefði mig sennilega dreymt eins og margt annað sem ég þóttist muna frá þessum tíma.
Amma var mér ekki sú amma sem ég þráði að eiga en ég færði henni matinn og skúraði fyrir hana en þær minningar sem ég á um hana eru ekki til skráningar.
Pabbi dó í júlí 1996 86 ára gamall en síðustu þrjú árin dvaldi hann á St Fransiscus spítalanum í Stykkishólmi en eftir að hafa fengið tvisvar heilablóðfall komst hann ekki á fætur aftur. Þetta voru honum erfið ár þótt vel væri um hann hugsað, hann gat ekki lesið eftir heilablæðingarnar en það var hans helsta dægrastytting áður og það eina sem gladdi hann var ef einhver gaf sér tíma til að fara með hann í reykherbergið svo hann gæti reykt eina sígarettu. Pípuna réði hann ekki lengur við en hún hafði verið honum staðfastur fylginautur frá unga aldri.
Mamma dó svo á þessum sama spítala árið 1999, 89 ára gömul og þrotin að kröftum en andlegri heilsu héldu þau bæði til dauðadags þótt líkaminn væri orðinn illa farinn af striti og streði lífsins.
Hún hefði orðið 100 ára 12. júní á næsta ári.
Blessuð sé minning þeirra beggja.

Thursday, December 24, 2009

Aðfangadagskvöld

Jólatréð okkar með öllum pökkunum okkar.

Brandur var svo glaður að fá loksins hring á litla puttann.

Og ég fékk Bláliljuna þótt ég væri búin að fá hrærivél og líka þrjár bækur frá bóndanum.

Snædís skreytti jólastréð seint á Þorláksmessu eftir að hafa staðið vaktina allan daginn yfir skötunni á Laugaási með bróður sínum.

Ánægð hjónakorn eftir að hafa tekið upp allar gjafirnar.
Þetta var rólegt aðfangadagskvöld. Við vorum bara tvö að þessu sinni og borðuðum hamborgara-hrygg og heimalagaðan ís í eftirrétt. Brandur fékk möndluna og fékk í möndlugjöf að fá að opna fyrsta pakkann. Við fengum fullt af fallegum gjöfum frá börnunum okkar og nánustu vinum og ættingjum. Það er yndislegt að vera til og vita að öllum líður vel í kringum okkur þótt við vildum helst hafa alla nær okkur en það er víst ekki hægt að fara fram á meira en að allir hafi það gott hver á sínum stað.





Jólakveðjur

Maggý, Brandur, Sigga, Ninna, Grímur, Maggi, Guðni, Anna Margrét, Anna Eym og Þórarinn.

Nú eru jólin að ganga í garð, aðfangadagur og allt í friði og ró. Enginn jólasnjór hér sunnanlands en í gær kom smáfjúk og það hvítnaði aðeins og birti yfir. Þetta er alveg nóg fyrir mig, ég vil frekar að allir komist klakklaust leiðar sinnar.
Í gær á Þorláksmessu var hér hin árlega skötuveisla fyrir spilaklúbbinn. Að þessu sinni voru forréttir í boði Hafró, Bramafiskur, makríll, loðna, reykt hrefna, söl og fleira en þetta var jólagjöf bátsmannsins þetta árið. Þessu voru gerð góð skil og ekki var skatan og saltfiskurinn síðri en Brandur er orðinn snillingur í að verka skötu.
Að loknu uppvaski fórum við til Fjólu, fyrrverandi tengdamóður minnar, og hún fór svo með mér að heimsækja Rúnu á Grund. Hún var mjög glöð að sjá okkur þrátt fyrir að vera kannski viss á hverjar við vorum. Hún er svo sæt og fín og lítur svo vel út en það sagði hún að væri því að þakka að það væru allir svo góðir við sig. Hún á líka ekki skilið annað því það gætu margir lært af henni hvernig á að koma fram við náungann. Alltaf glöð og kát og þakklát fyrir allt þótt lífið hafi kannski ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum.
Í kvöld fer Snædís til Jóa og Guðrúnar og borðar með þeim og pabba sínum en við hjónakornin verðum hér tvö ein í friði og ró og ætlum svo að hlusta á Pál Óskar og Móniku í Fríkirkjunni kl hálftólf. Á morgun fáum við svo njóta samvista við börn og barnabörn sem eru hér í kringum okkur en önnur verða að vera með okkur í anda.