


Á jóladag komu Jói, Guðrún, Daníella, Jökull og Nonni í mat. Jói þurfti fyrst að keyra Viktoríu á Stokkseyri svo honum seinkaði aðeins. Kalkúnninn sem fór inn í ofn um tíuleytið var því orðinn heldur þurr á manninn að bíða eftir gestunum. Eftir matinn spiluðum við Alias sem reyndi töluvert á heilann hjá okkur þessum gömlu. Bráðskemmtilegt samt þrátt fyrir tap.
Annar í jólum var slökunardagur eftir veisluhöld síðustu þriggja daga. Við Brandur fórum í göngutúr um Elliðaárdalinn og enduðum í kaffi og smákökum í Byggðarenda hjá Önnu og Þórarni. Gengum síðan heim aftur í rökkrinu og ég brunaði upp brekkuna án þess að stoppa og kom sjálfri mér og Brandi virkilega á óvart. Kannski er ég orðin svona orkumikil eftir allt átið síðustu daga, nóg til að brenna.
Við elduðum síðan jólasviðin hans Brands og la´gum svo á meltunni það sem eftir lifði kvölds.