
Stykkishólmur skartaði sínu fegursta í sólskininu.

Hólmararnir, Jóhanna, Helgi og Kristinn voru búin að skipuleggja þessa frábæru ferð. Sæferðir fluttu okkur í tveimur hollum út í Bíldsey en þar er Gunnlaugur Árnason Helgasonar (bróðir Helga) eyjabóndi. Þetta var hátindur ferðarinnar og stressið lak af mönnum úti í þessari svo til ósnertu náttúru. Þarna gengur féð sjálfala allt árið og sér til þess að eyjan hverfi ekki í sinu. Fuglalíf er mikið og þurftum við að fara varlega um til að hrekja ekki fuglinn af eggjunum en það tókst samt ekki alveg.

Það var frískandi að finna ferskt sjávarloftið leika um vangana og ég er ekki frá því að flensuskrattinn sem hefur herjað á mig síðustu daga hafi orðið að láta undan því.

Gunnlaugur Eyjabóndi sagði okkur sögu eyjarinnar og frá því hvernig hún komst í eigu Árna Helgasonar og fjölskyldunnar.

Í skógræktinni í Stykkishólmi fengum við næringu og nutum þess að vera í góðu veðri á fallegum stað á okkar ástlæra Íslandi. Við þurfum ekkert að vera að flengjast til útlanda þegar við eigum svona fallega staði hérna heima- segir Pollýanna.

Við fórum Vatnaleiðina og stoppuðum við útsýnispallinn við Bauluvallavatn.

Við gengum frá skógræktinni niður að höfn.

Eftir að hafa borðað á Narfeyrarstofu skiptist hópurinn í tvennt. Minn hópur gekk upp á Súgandisey sem nú er búið að tengja við land og er hluti af höfninni. Við nutum þess að horfa á fjallahringinn og eyjarnar í kvöldsólinni og varla hægt að hugsa sér að fegurri stað sé hægt að finna en ég er kannski ekki alveg hlutlaus. Hinn hópurinn gekk upp að Bókhlöðu sem nú hýsir vatnasafn en þar eru súlur fylltar af vatni úr 19 jöklum á Íslandi.
No comments:
Post a Comment