Saturday, May 16, 2009

Bekkjarsystur úr Kennó í heimsókn hjá Unu í Þykkvabænum

Una bekkjarsystir okkar úr Kennó bauð okkur til sín helgina 9.-10. maí. Við hittumst heima hjá Þóreyju í Kópavoginum og brunuðum síðan á tveimur jeppum austur fyrir fjall. Á Selfossi var stoppað til að kaupa vistir og tól það töluverðan tíma sem er skiljanlegt þegar 6 konur eru saman að kaupa í matinn og ólíkar í háttum. Við Alda tókum okkur vel út með körfuna og vorum dauðfegnar að leyfa hinum að ákveða allt saman.
Handagangur í öskjunni við kassann.

Við hjálpuðumst síðan allar að við matseldina og við Alda fengum auðvitað vandasamasta hlutverkiðö að skera niður grænmetið og var handverkið einróma lofað.

Sigrún Björk, Björg, Alda, Þórey, Sigga, Sjöfn og Una.
Veðrið var yndislegt, sólskin og logn þótt hitastigið væri ekki enn orðið mjög hátt.
Við sóluðum okkur á pallinum hjá Unu dágóða stund og nutum útsýnisins sem er mikið og fagurt til allra átta úr Húsinu á sléttunni. Fjallahringurinn í norðri er stórkostlegur.

Sjöfn útbjó þennan fallega Mojito og við ímynduðum okkur að við sætum á sólarströnd.
Nú njótum við þess að eiga okkar fallega land og hefjum það til dýrðar. Við þurfum ekki alltaf að leita langt yfir skammt. Pollýanna er aftur komin út og um að gera að taka hana sér til fyrirmyndar.

Sigurjón, sonur Unu, hjálpaði okkur með tæknina til að komast í samband við Regínu í gegnum Skype. Hún dvelur í góðu yfirlæti á Kanaríeyjum og var með okkur góðan hluta kvöldsins. Heimurinn er svo sannarlega skroppinn saman á tækniöld.
Við spjölluðum saman langt fram á nótt og rifjuðum upp gamlar minningar úr Kennó og sögðum frá því sem á daga okkar hefur drifið sem er margt og misjafnt, gleði og sorgir hafa fylgt okkur eins og öðrum en þannig er lífið, við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sínu. Þess vegna er svo gott að lifa í núinu, læra af reynslunni og hlakka til þess óvænta.






No comments: