Sunday, May 24, 2009

Útskriftarveisla Inga Björns

Afinn stoltur með afastrákana sína tvo sem eru aldursforsetar í barnabarnahópnum.
Eingi Björn, Ellen og Úlfar bjóða gesti velkomna.

Snædís og Ólöf tóku sig vel út í veislunni.
Örvar kominn í tölvuna og Ólöf í símann.
Ingi Björn afastrákurinn hans Brands útskrifaðist laugardaginn 23. maí sem stúdent frá Verslunarskóla Íslands. Honum gekk mjög vel og við erum stolt af stráknum eins og reyndar öllum barnabarnahópnum okkar. Börnin og barnabörnin eru okkar ríkidæmi og við getum ekki annað en verið glöð yfir að eiga svona flottan hóp sem gengur vel í lífinu. Megi gæfa og gjörvileiki fylgja þeim öllum í framtíðinni.




Vorferð Engjaskóla

Það var mikið fjör við Reynisvatn eins og sjá má.
Guðný var hlutlaus dómari í pönnukökukeppninni.

Bryndís las upp söguna sem hanarnir bjuggu til.
Vorhátíð Engjaskóla var haldin á föstudaginn. Hátíð barnanna fór fram í skólanum í ausandi rigningu og roki og það voru blaut börn sem fóru heim þann daginn eftir að hafa keppt í margs konar greinum við misjafnar aðstæður.
Starfsfólkið hélt svo sína hátíð um kvöldið. Hópnum var skipt upp í sex hópa sem fengu nöfnin hanar, krummar, hundar, svín, hestar og mýs. Klukkan sex fóru hóparnir í örpartý sem voru haldin heima hjá sex starfsmönnum sem eru svo heppnir að eiga heima í göngufæri við skólann. Þar undirbjuggu hóparnir sig, bjuggu til búninga og fögn. Að því loknu var stormað inn í skóla og þar urðu hóparnir að keppa í mörgum greinum eins og pönnukökubakstri, myndlist, dansi og söng og einnig voru þeir látnir þreyta lestrarpróf. Síðan var farið með rútu upp að Reynisvatni og þar sá Grillvagninn um að grilla ofan í mannskapinn.
Úrslit voru síðan kunngerð úr keppnninni og voru ekki allir sáttir við þau og á tímabili var líkt og Búsáhaldabyltingin væri endurvakin en enginn var þó handtekinn né settur í steininn. Hóparnir sýndu svo dans- og söngatriðin sem þeir höfðu æft í skólanum og ótrúlegt hvað fólk hafði náð að búa til flott atriði á stuttum tíma og margir hæfileikamenn komu þarna fram.
Hátíðinni lauk svo með trylltum dansi fram yfir miðnætti og sennilega var söngkeppninni haldið áfram í heimahúsi þarna í grennd en við gömlu hjónin fórum bara heim enda frúin búin í fótunum eftir allan dansinn.




Saturday, May 16, 2009

Stjórnendur úr Grafarvogi og af Kjalarnesi í fræðsluferð

Stykkishólmur skartaði sínu fegursta í sólskininu.
Hólmararnir, Jóhanna, Helgi og Kristinn voru búin að skipuleggja þessa frábæru ferð. Sæferðir fluttu okkur í tveimur hollum út í Bíldsey en þar er Gunnlaugur Árnason Helgasonar (bróðir Helga) eyjabóndi. Þetta var hátindur ferðarinnar og stressið lak af mönnum úti í þessari svo til ósnertu náttúru. Þarna gengur féð sjálfala allt árið og sér til þess að eyjan hverfi ekki í sinu. Fuglalíf er mikið og þurftum við að fara varlega um til að hrekja ekki fuglinn af eggjunum en það tókst samt ekki alveg.

Það var frískandi að finna ferskt sjávarloftið leika um vangana og ég er ekki frá því að flensuskrattinn sem hefur herjað á mig síðustu daga hafi orðið að láta undan því.

Gunnlaugur Eyjabóndi sagði okkur sögu eyjarinnar og frá því hvernig hún komst í eigu Árna Helgasonar og fjölskyldunnar.

Í skógræktinni í Stykkishólmi fengum við næringu og nutum þess að vera í góðu veðri á fallegum stað á okkar ástlæra Íslandi. Við þurfum ekkert að vera að flengjast til útlanda þegar við eigum svona fallega staði hérna heima- segir Pollýanna.
Við fórum Vatnaleiðina og stoppuðum við útsýnispallinn við Bauluvallavatn.

Við gengum frá skógræktinni niður að höfn.

Eftir að hafa borðað á Narfeyrarstofu skiptist hópurinn í tvennt. Minn hópur gekk upp á Súgandisey sem nú er búið að tengja við land og er hluti af höfninni. Við nutum þess að horfa á fjallahringinn og eyjarnar í kvöldsólinni og varla hægt að hugsa sér að fegurri stað sé hægt að finna en ég er kannski ekki alveg hlutlaus. Hinn hópurinn gekk upp að Bókhlöðu sem nú hýsir vatnasafn en þar eru súlur fylltar af vatni úr 19 jöklum á Íslandi.








Bekkjarsystur úr Kennó í heimsókn hjá Unu í Þykkvabænum

Una bekkjarsystir okkar úr Kennó bauð okkur til sín helgina 9.-10. maí. Við hittumst heima hjá Þóreyju í Kópavoginum og brunuðum síðan á tveimur jeppum austur fyrir fjall. Á Selfossi var stoppað til að kaupa vistir og tól það töluverðan tíma sem er skiljanlegt þegar 6 konur eru saman að kaupa í matinn og ólíkar í háttum. Við Alda tókum okkur vel út með körfuna og vorum dauðfegnar að leyfa hinum að ákveða allt saman.
Handagangur í öskjunni við kassann.

Við hjálpuðumst síðan allar að við matseldina og við Alda fengum auðvitað vandasamasta hlutverkiðö að skera niður grænmetið og var handverkið einróma lofað.

Sigrún Björk, Björg, Alda, Þórey, Sigga, Sjöfn og Una.
Veðrið var yndislegt, sólskin og logn þótt hitastigið væri ekki enn orðið mjög hátt.
Við sóluðum okkur á pallinum hjá Unu dágóða stund og nutum útsýnisins sem er mikið og fagurt til allra átta úr Húsinu á sléttunni. Fjallahringurinn í norðri er stórkostlegur.

Sjöfn útbjó þennan fallega Mojito og við ímynduðum okkur að við sætum á sólarströnd.
Nú njótum við þess að eiga okkar fallega land og hefjum það til dýrðar. Við þurfum ekki alltaf að leita langt yfir skammt. Pollýanna er aftur komin út og um að gera að taka hana sér til fyrirmyndar.

Sigurjón, sonur Unu, hjálpaði okkur með tæknina til að komast í samband við Regínu í gegnum Skype. Hún dvelur í góðu yfirlæti á Kanaríeyjum og var með okkur góðan hluta kvöldsins. Heimurinn er svo sannarlega skroppinn saman á tækniöld.
Við spjölluðum saman langt fram á nótt og rifjuðum upp gamlar minningar úr Kennó og sögðum frá því sem á daga okkar hefur drifið sem er margt og misjafnt, gleði og sorgir hafa fylgt okkur eins og öðrum en þannig er lífið, við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sínu. Þess vegna er svo gott að lifa í núinu, læra af reynslunni og hlakka til þess óvænta.