
Það var mikið fjör við Reynisvatn eins og sjá má.

Guðný var hlutlaus dómari í pönnukökukeppninni.

Bryndís las upp söguna sem hanarnir bjuggu til.
Vorhátíð Engjaskóla var haldin á föstudaginn. Hátíð barnanna fór fram í skólanum í ausandi rigningu og roki og það voru blaut börn sem fóru heim þann daginn eftir að hafa keppt í margs konar greinum við misjafnar aðstæður.
Starfsfólkið hélt svo sína hátíð um kvöldið. Hópnum var skipt upp í sex hópa sem fengu nöfnin hanar, krummar, hundar, svín, hestar og mýs. Klukkan sex fóru hóparnir í örpartý sem voru haldin heima hjá sex starfsmönnum sem eru svo heppnir að eiga heima í göngufæri við skólann. Þar undirbjuggu hóparnir sig, bjuggu til búninga og fögn. Að því loknu var stormað inn í skóla og þar urðu hóparnir að keppa í mörgum greinum eins og pönnukökubakstri, myndlist, dansi og söng og einnig voru þeir látnir þreyta lestrarpróf. Síðan var farið með rútu upp að Reynisvatni og þar sá Grillvagninn um að grilla ofan í mannskapinn.
Úrslit voru síðan kunngerð úr keppnninni og voru ekki allir sáttir við þau og á tímabili var líkt og Búsáhaldabyltingin væri endurvakin en enginn var þó handtekinn né settur í steininn. Hóparnir sýndu svo dans- og söngatriðin sem þeir höfðu æft í skólanum og ótrúlegt hvað fólk hafði náð að búa til flott atriði á stuttum tíma og margir hæfileikamenn komu þarna fram.
Hátíðinni lauk svo með trylltum dansi fram yfir miðnætti og sennilega var söngkeppninni haldið áfram í heimahúsi þarna í grennd en við gömlu hjónin fórum bara heim enda frúin búin í fótunum eftir allan dansinn.