Sunday, March 15, 2009

Körfubolti Snæfell-Stjarnan

Ég fór með Maggý í gær á körfuboltaleik í Hólminum. Snæfell tók á móti Stjörnunni í 8 liða úrslitum. Snæfell vann auðvitað með glæsibrag og gaman að sjá Magna frænda koma sterkan inn þrátt fyrir að æfa ekki neitt núna með liðinu, er bara í lögguleik í Ólafsvík. Mogginn skýrði frá því í gær að sýslumaðurinn hefði veitt honum leyfi frá störfum til að geta keppt í úrslitunum. Þetta er reyndar ekki Magni sem er á myndinni, heldur Sigurður Þorvaldsson sem skoraði flest stig.
Hér er Magni í stríði um boltann á móti Njarðvík sýnist mér.

Og hér er liðið eins og það var í fyrra, Magni þriðji frá hægri í aftari röð, ekki leiðinlegt að eiga svona stóran og myndarlegan frænda og ekki skemmir hvað hann er líka fallegur að innan.



Allt í einu kominn mars

Ég fékk að hafa Jökul Mána hjá mér um síðustu helgi meðan foreldrarnir voru að vinna fyrir daglegu brauði. Við undum okkur vel saman og hann var hæstánægður með bókina sem ég keypti handa honum á bókamarkaðnum í Perlunni. Snædís fór með hann í afmæli og Maggý bauð okkur í mat svo hann hafði nóg að gera. Ég keyrði hann svo til Keflavíkur á sunnudag í afmæli en eftir að hafa sofið alla leiðina var góða skapið fokið út í buskann og hann ekki alveg tilbúinn að fara í stelpuafmæli. Það tókst þó að lokum að koma honum þangað og vonandi skemmti hann sér vel eftir allt brasið. Ótrúlegt hvað þessi svefngeðvonska hefur gengið áfram til afkomenda minna, hefði alveg mátt stoppa hjá mér.
Vinnuvikan leið svo eins og hún gerir venjulega, alltaf kominn föstudagur áður en maður veit af. Árshátíð skólans var á fimmtudag og tókst vel og eins og gefur að skilja fór vikan í æfingar og skipulagningu. Nú eru þrjár vikur til páskafríið skellur á og verða þær örugglega fljótar að líða eins og aðrar.

Monday, March 2, 2009

Heimsókn að norðan

Ester, Bjarki, Ástrós og Hera komu til okkar um síðustu helgi. Alltaf gaman að fá gesti sem lífga upp á tilveruna. Við fórum í keilu með þeim og ég stóð mig feikna vel þótt Brandur reyndi að draga úr því með því að minna mig á að ég hafi fengið að vera með hliðgrindurnar uppi eins og börnin en ég notaði þær ekkert mjög mikið.

Utanborgarferð í vetrarfríinu

Í ljósi efnahagsásstands í landinu ákváðum við að þessu sinni að fara ekki í borgarferð í vetrarfríinu heldur utanborgarferð og fórum í Hvalfjörðinn á Hótel Glym. Þarna voru engar biðraðir og við máttum hafa með okkur allan þann vökva sem okkur hugnaðist og vorum algjörlega óþreytt þegar við mættum á hótelið eins og sést.
Þarna er líka hægt að skoða kirkjur. Hef ekki tölu á hve oft við erum búin að keyra framhjá Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd án þess að skoða hana nánar. En nú erum við búin að því og uppgötvuðum að þetta er undurfalleg kirkja með steindum Gerðargluggum. Ég er líka handviss um að Hallgrímur er þarna enn á reiki því meðan við sátum inni í kirkjunni heyrði ég fótatak fyrir utan og hélt að það væri einhver að koma og gá að okkur. Fótatakið þagnaði fyrir utan dyrnar og enginn kom inn, síðan heyrði ég það fjarlægjast. Brandur heyrði ekkert og kannski raunhæf skýring á því en þegar við komum út var engin sála sjáanleg þótt við gengjum allt í kringum kirkjuna. Ég er því handviss um að þetta var ekki sjáanleg sála heldur var sálmaskáldið að kanna hvort við létum ekki eigur hans í friði en þarna inni er geymdur kaleikur frá hans tíð og fleiri hlutir. Jón Rafn hótelstjóri virtist ekkert hissa á fótatakinu, hann hefði oft orðið var slíkt inni í kirkjunni þótt hann væri þar einn á ferð. Hann sagði okkur sögu kirkjunnar en hún var vígð 1957. Fyrst var búið að teikna aðra kirkju og leggja grunn að henni en það var hætt við hana og sú kirkja byggð í Laugarnesinu. Þessi kirkja er minni en hin og stendur hún því á of stórum grunni. Að innan er hún músteinshlaðin að dönskum sið og mjög hlýleg og falleg.

Saurbæjarkirkja séð gegnum sáluhliðið, enginn Hallgrímur sjáanlegur en leiði þeirra Guðríðar eru neðar í kirkjugarðinum við upphækkaðan grunnflöt gömlu kirkjunnar sem hefur verið heldur minni en þessi.


Svítan sem við fengum var á þremur pöllum og útsýnið stórkostlegt eins og sjá má. Fyrir neðan hótelið er verið að byggja sex sumarhús sem verða öll með mismunandi þemu og eiga að vera tilbúin í maí. Ekkert krepputal þarna á bæ.



Á heimleiðinni á laugardag kíktum við í Skorradalinn og þar var allt í fínu lagi, engir óboðnir gestir nema nokkrar flugur sem ekki hafa lifað af vistina í bænum. Þarna var blankalogn og hlýtt miðað við árstíma og okkur fannst örla á vorinu.


Við fengum okkur svo kaffi í Geirabakaríi í Borgarnesi svo úr þessu varð smáborgarferð að lokum. Eins og sjá má var veðrið dásamlegt og bærinn skartaði sínu fegursta og speglaði sig í Brákarsundinu til að sjá hvort ekki væri allt í lagi með útlitið.