
Ég fékk að hafa Jökul Mána hjá mér um síðustu helgi meðan foreldrarnir voru að vinna fyrir daglegu brauði. Við undum okkur vel saman og hann var hæstánægður með bókina sem ég keypti handa honum á bókamarkaðnum í Perlunni. Snædís fór með hann í afmæli og Maggý bauð okkur í mat svo hann hafði nóg að gera. Ég keyrði hann svo til Keflavíkur á sunnudag í afmæli en eftir að hafa sofið alla leiðina var góða skapið fokið út í buskann og hann ekki alveg tilbúinn að fara í stelpuafmæli. Það tókst þó að lokum að koma honum þangað og vonandi skemmti hann sér vel eftir allt brasið. Ótrúlegt hvað þessi svefngeðvonska hefur gengið áfram til afkomenda minna, hefði alveg mátt stoppa hjá mér.
Vinnuvikan leið svo eins og hún gerir venjulega, alltaf kominn föstudagur áður en maður veit af. Árshátíð skólans var á fimmtudag og tókst vel og eins og gefur að skilja fór vikan í æfingar og skipulagningu. Nú eru þrjár vikur til páskafríið skellur á og verða þær örugglega fljótar að líða eins og aðrar.