Sunday, August 31, 2008

Þórsmerkurferð

Kort af Þorsmörk. Dökku línurnar eru þær leiðir sem við gengum.
Við fórum í alvöru fjallatrukk frá Hópferðamiðstöðinni með traustum bílstjóra svo allur minn kvíði fauk út í veður og vind og hjartað sló ekki feilpúst þegar við fórum yfir árnar.

Fríður hópur við lónið sem við fórum yfir og ég afþakkaði að nota göngubrúna, kjarkurinn orðinn ótrúlega mikill enda kom ég sjálfri mér og öðrum mikið á óvart í þessari ferð.

Vörubíllinn sem aðstoðar við að fara yfir Krossá.
Ég held ég myndi ekki leggja í þetta á jepplingnum.

Komin í Merkursel í Húsadal. Matta og Stína brostu út að eyrum
eins og reyndar allir gerðu alla ferðina.


Við fórum strax í göngu yir í Langadal. Fararstjórinn,Ingibjörg Ragnars, tók mig á sálfræðinni og neitaði að skilja mig eftir í berjamó. Sagði að þetta væri stutt ganga fyrir alla og ég gæti bara snúið við ef ég gæfist upp. Sem betur fer þorði ég ekki annað en hlýða og þetta varð að fjögurra tíma göngu sem ég hefði ekki viljað missa af. Kom sjálfri mér mjög mikið á óvart og komst alla leið og ég sem kemst varla upp úr Elliðaárdalnum eftir 15 mínútna göngutúr.

Við Snorraríki en þar faldi einhver Snorri sig fyrir óvinum fyrir margt löngu. Þrír ofurhugar klifruðu upp og sýndu ótrúlega takta. Ég lét það eiga sig, vildi ekki vekja of mikla athygli.

Matta fór létt með að fara í spor eiginmannsins sem glittir í á bak við hana.
Jón Ingi fór fyrstur upp en sést ekki inn i myrkrinu.

Komin í Langadal og þar ætlaði ég að snúa við og fannst ég bara búin að sýna þrekvirki að komast þangað en enn beitti Ingibjörg sálfræðinni og sagði að það væri létt
ganga upp í Slyppugil og enn hlýddi ég, sem betur fer.

Af og til var áð til að kasta mæðinni og það bjargaði mér.
Reyndar varð þetta alltaf léttara eftir því sem leið á gönguna.

Komin upp úr Slyppugilinu og Matta ennþá brosandi út að eyrum.
Við ætluðum aðra leið til baka en fundum hana ekki svo við gengum sömu leið, bara uppi í staðinn fyrir niðri í gilinu og enduðum á sama stað, í Langadal. Þarna uppi sáum við vítt og breitt og fjallahringurinn er stórkostlegur og mikil litadýrð. Veðrið var yndislegt, logn, smáúði annað slagið og reyndar smáhaglél líka og svo skein sólin inn á milli. Gat ekki verið betra.

Er það furða að tröllasögur hafi orðið til?

Sönnun fyrir því að ég fór upp. Þarna var ég komin í gott form og steinhætt að væla um að ég gæti þetta ekki. Held að sjálfstraustið hafi vaxið um helming þarna upp frá.

Vi lögðum af stað heim um hádegið í dag og þegar við vorum komin aftur yfir Krossá var farið upp í Stakkholtsgjá og tekinn ¨léttur¨ göngutúr inn í gjána til að ná úr sér harðsperrunum eftir löngu gönguna í gær.

Það þurfti að vaða yfir ána á nokkrum stöðum og við þurftum að rifja upp gamla takta við að stikla á steinum. Sveitamaðurinn í mér vaknaði á ný og kom mér yfir án þess að ég dytti í ána.

Hvar ætli sé best að fara yfir?

Komin inn að fossi sem fellur niður innst í gjánni. Þessari á ég að þakka að hafa nú látið gamlan draum rætast að komast í Þórsmörk. Þetta er sem sagt Ingibjörg Ragnars sem tók mig á sálfræðinni og hlustaði ekki á vælið í mér, kom mér af stað í gönguna og hvatti mig áfram.
Verð henni ævinlega þakklát því þarna tókst mér að sanna fyrir sjálfri mér að sennilega get ég meira en ég hélt að ég gæti. Og áfram nú stelpa!

Haustferðin okkar í Engjaskóla var sem sagt ferð í Þórsmörk. Þetta var ákveðið í vor og skálinn pantaður og þá ætluðu allir að fara. Þegar á reyndi reyndust margir uppteknir við annað en þessi 17 hraustmenni létu það ekki á sig fá og fóru samt og við sjáum ekki eftir því, enginn hefði viljað missa af þessu. Þetta var besta hópefli sem hægt er að fá, allir að hjálpast að og styðja hvern annan. Eftir gönguferðina á laugardag var grillað, eiginmennirnir þrír í hópnum sáu um það og reyndust hinir mestu grillmeistarar. Eftir matinn var byrjað að syngja og djamma en þá fór að siga á seinni hlutann hjá mér og mikill lúi gerði vart við sig. Ég var því komin á dýnuna upp úr tíu og lét hinum eftir að skemmta sér. Sé svolítið efir því að hafa ekki haft þol í djammið en það er ekki hægt að gera allt. Ég var líka mjög ánægð með það þegar ég vaknaði í morgun eldhress þótt það væri reyndar dálítið erfitt fyrst að rísa upp af dýnunni. En það lagaðist og eftir morgunmat var allt skúrað út og við drifum okkur út í sólina sem nú skein glatt og varla skýhnoðri á himni. Gangan inn Stakkholtsgjá var ekki síðri heldur en gangan í gær. Þarna er óskaplega fallegt og fossinn innst í gjánni er mikil náttúruperla. Það var því ánægður og svolítið lúinn hópur sem skilaði sér í bæinn aftur um fimmleytið. Búið að treysta vinaböndin og byggja upp sjálfstraust hjá sumum, alla vega mér, og nú get ég varla beðið eftir næstu haustferð og þá verður sko ekkert væl.

















Tuesday, August 19, 2008

Síðustu dagar í sumarfríi

Dóra, Snædís, Kara, Roman og Rúna komu og gistu í Skógarbæ.
Alltaf nóg pláss í kotinu.
Þau skemmtu sér vel eins og sjá má.

Kara Björk undi sér vel á loftinu. Nýi stiginn gerði gæfumuninn.
Hérna sést oddvitataskan hans pabba, vettlingar og illeppar frá mömmu og
tóbaksjárnið hans afa.

Rúna og Kara tíndu hrútaber, þau fáu sem fuglarnir hafa skilið eftir handa okkur.

Systurnar skemmtu sér við að spila við börnin.

Og svo var farið i göngutúr niður að vatni.

Á sunnudagskvöldið var grillað í Grýtubakkanum,
aðeins meira pláss þar fyrir alla fjölskylduna.



Þá er sumarfríið á enda, skólinn byrjaður aftur með öllu því stressi sem honum fylgir og Brandur kominn út á sjó. Við höfðum það mjög gott í sumar enda varla annað hægt í svona góðu veðri. Ég sá í Skógarbæjardagbókinni að við erum búin að dvelja 40 daga í Skorradalnum frá því í mars og eigum vonandi einhverja daga eftir í september því þá verður Brandur aftur heima.
Við fórum því ekki mikið annað enda var alltaf besta veðrið hér. Við fengum reyndar líka góða daga á Siglufirði og í Ólafsvík svo það má segja að við höfum alltaf verið sólarmegin í sumarfríinu.
En núna er bara að takast á við komandi vetur og vinnuna sem bíður. Það verður líklega nóg að gera þar sem ekki streyma sérkennarar inn í skólann minn eins og ég var svo vongóð um í vor og þar með erfitt að veita þá þjónustu sem þörf er á. Þá er bara að bíta á jaxlinn og gera eins vel og maður getur þar sem annað er ekki í boði.




Monday, August 11, 2008

Brúðkaup Hermanns og Regínu

Brúðarbíllinn var glæsilegur enda vel við hæfi að slökkviliðsmaðurinn fengi
gamla brunabílinn í Ólafsvík til að gegna því hlutverki.
Fallegu stelpurnar mínar.

Hermann og Regína dansa brúðarvalsinn.

Stella vann teygjukeppnina. Allir fengu teygju í upphafi og svo mátti ekki segja já eða nei né svart og hvítt þá missti maður teygjuna til viðmælandans. Mér tókst að halda minni tvisvar í 3 sekúndur en hún systir mín sló öllum við og vann með glæsibrag þótt kannski væru ekki allir sáttir við hvernig hún fór að því. Keppnisskap í minni.
Magni og Hermann sýndu flott dansatriði við mikinn fögnuð veislugesta.


Fannar, Snædís, Jói og Guðrún voru í miklu stuði.
Jói glaður yfir að vera búinn með sinn þátt í veislunni en hann eldaði allan matinn og fékk líka mikið lof fyrir hann enda var hann bæði ljúffengur og glæsilega framreiddur.
Brandur skemmti sér líka vel en þurfti stundum að leita að konunni sinni
sem sleppti fram af sér beislinu eftir allt stressið.

Ég er svo stolt af fallegu börnunum mínum.

Tengdmæðurnar, Laufey og Maggý, voru flottar í Abba dressinu og
lagið The dancing queen verður eftir þetta ógleymanlegt.
Veislustjórarnir úthluta teygjunum.

Ég fékk axlanudd hjá Magna og veitti ekki af þótt þarna væri töluvert farið að slakna á mér.
Þetta var svo sannarlega brúðkaup aldarinnar enda ekkert til sparað að allt væri sem skemmtilegast. Veðurguðirnir tóku meira að segja þátt í undirbúningnum og sköffuðu frábært veður, sólskin og logn allan daginn. Eftir fallega athöfn í Ólafsvíkurkirkju stigu brúðhjónin upp í gamla brunabílinn og þau voru síðan keyrð um bæínn og mynduð á völdum stöðum en Hafsteinn Óskarsson myndaði þau. Veislugestir tóku síðan á móti þeim í félagsheimilinu á Klifi. Salurinn var mjög fallega skreyttur og maturinn sem Jói sá um um með smáaðstoð frá okkur fjölskyldu-meðlimunum, tók sig vel út á veisluborðinu og vakti mikla lukku. Magni og vinkona hennar Regínu sáu um veislustjórn og höfðu nóg að gera því nóg var um skemmtiatriði og aldrei hlé á. Veislan á því að reyk var blásið inn í salinn og Magni birtist í slökkviliðsbúning og kafaði reykinn þar til hann fann hinn veislustjórann einhvers staðar á kafi í kófinu. Þegar fólk fór að sjá aftur hófst veislan með forréttum, aðalréttum og súkkilaðikökum. Inn á milli voru skemmtiatriði, Maggý og Laufey, tengdamæðurnar, dönsuðu og sungu við Abbalagið The dancing queen í líka þessum flottu búningum. Siggi trúbador söng eitt lag og þrjár vinkonur Regínu sungu líka nokkur lög. Mgni og Hermann tóku sitt flotta dansatriði sem þeir frumsýndu í fimmtugsafmælinu hennar Maggýjar og hafði ekki versnað síðan þá. Stella systir talaði til brúðhjónanna og einnig vinir Hermanns úr slökkviliðinu. Að þessu loknu hófs dansleikur og spilaði hljómsveitin Vinir Hemma (slökkviliðsmenn úr Reykjavík sem heita venjulega Vinir vandamanna) fyrir dansi. Það var mikið stuð og ég dansaði til klukkan 4 af miklum móð. Ég var ekki eins glöð um morguninn þegar ég vaknaði með þvílíkar harðsperrur og strengi. Krakkarnir voru ekki hissa á því þar sem dansstíll mínir hefði líkst hlaupi á hlaupabretti og hafði Jói sérstaklega gaman af því að herma það eftir. Og mér sem fannst ég vera svo frábær á gólfinu innan um allan ungdóminn.








Monday, August 4, 2008

Verslunarmannahelgin

Birna, Skúli og Gógó komu í kaffi á sunnudaginn. Skúli er ekki sofnaður þótt það líti út fyrir það, hann var mjög hress eins og hann er alltaf.
Eftir brennuna á Fitjavöllum reyndi Brandur að búa til varðeld í arninum en það gekk illa að láta loga. Ég var bara ánægð með það því ég var svo logandi hrædd við skraufþurran skóginn í kring.

Ég klæddi mig í útileguslána og setti á mig ullarhattinn því undir miðnættið var farið að kólna.


Fitjahlíðarbrennan var flott og fullt af fólki. Harmonikka og gítar og ¨brekku¨söngur.
Síðan var ball í skemmunni á Fitjum en við slepptum því, gömlu hjónin.

Jarðarber og rabarachutney, afurðir úr matjurtagarðinum.

Á fimmtudaginn var buðu Anna og Þórarinn okkur í kvöldmat.
Anna og Guðni komu hjólandiog fóru líka heim hjólandi í fínu formi.

Þórarinn og Anna fylgdu okkur út á hlað, vildu ekki missa vitið úr bænum,
slæmt fyrir okkur en auðvitað gott fyrir þau.
Þá er verslunarmannahelgin yfirstaðin og þá læðist að manni kvíði að nú sé sumarið senn á enda. Myrkvaðar nætur og hitastigið farið að lækka. En allar árstíðir hafa sinn sjarma, haustið er oft yndislegt og auðvitað er alltaf gaman að vera til, bara ef maður lítur þannig á það.
Snædís og Fannar koma á morgun frá Kanarí og Dóra með börnin sín þrjú kemur á miðvikudaginn svo nú fer að lifna í kotinu. Brúðkaupsveisla næsta laugardag í Ólafsvík sem verður örugglega bráðskemmtileg. Alltaf eitthvað til að hlakka til.