Sunday, October 28, 2007

Vetur genginn í garð

Vikan hefur verið frekar viðburðasnauð svo lítið er til að skrifa.
Ég fór í spilaklúbb til Önnu Margrétar á miðvikudagskvöldið og vann fyrri rúbertuna, aldrei þessu vant. Það gerist ekki oft svo það var frekar ánægjulegt enda með afbrigðum tapsár manneskja. Á fimmtudagskvöldið var töskukynning hjá Maggý en hún og Dagný hafa verið að hanna og sauma töskur undanfarið til að fjármagna ferð til Oxford. Þær eru ansi sniðugar að nýta gamla hluti, en það er einmitt það flottasta í dag. Miklir alþýðulistamenn þar á ferð. Ég aftur á móti sit og prjóna sokka á barnabörnin en spurning hvort þau fara einhvern tímann í þá. En það er alla vega gott fyrir sálina að hafa eitthvað fyrir stafni og sjá eitthvað áþreifanlegt eftir daginn. Afrakstur heimilisverkanna sér nefnilega enginn nema þegar þeim er sleppt.
Ég fékk að hafa Jökul Mána hjá mér um helgina þar sem foreldrarnir voru í brúðkaupsafmæli. Honum leiddist ekki meira en það að hann vildi ekki fara heim í dag en ég varð nú samt að skila honum.
Við fengum okkur góðan göngutúr í morgun upp í Efra-Breiðholt til Maggýjar en þá var hún ekki heima svo við urðum bara að rölta heim aftur. Hann fékk samt að sjá hundinn Kandís sem er mjög smágerður en honum leist ekkert á hann, vildi bara fá að sjá stóran hund. Veðrið er búið að vera mjög bjart og fallegt í dag, sólskin og smáhéla yfir öllu. Gott eftir alla rigninguna undanfarið en samt er ég alltaf dálítið óstyrk þegar ég legg út í fyrstu hálku vetrarins. Það var auðvitað fyrsti vetrardagur í gær svo veturinn heilsaði á viðeigandi hátt.
Nú get ég farið að hlakka til Berlínarferðar og vonandi verður ekki Vetur konungur orðinn svo alls ráðandi að við verðum að fara með kuldagallana með okkur en þá verða það bara lopapeysurnar sem fá að fara með í staðinn fyrir stuttbuxurnar.

Monday, October 22, 2007

Myndir úr afmælinu





































Maggý fimmtug

Maggý hélt upp á fimmtugsafmælið sitt á laugardaginn eins og henni er einni lagið. Veislan var haldin í sal Framsóknarmanna í Kópavogi og þar var þétt setinn bekkurinn af ættingjum og vinum. Nóg af mat og drykk og skemmtiatriðum. Við vinkonurnar, sem köllum okkur Þúfutittlingana hennar Maggýjar, sungum með henni uppáhaldslagið hennar um þessar mundir sem heitir Lífið er svo stutt og er eftir Magnús Kjartansson. Textinn er um konu sem gengur illa að finna draumaprinsinn þótt nóg sé af allrahanda prinsum með bakpoka sem alltaf geta flutt. Hún getur líka alltaf flutt og fundið sér nýjan. Skrýtið!! Hann Óli í Öskjuhlíðarskóla spilaði undir á harmonikku en hann sá um tónlistina í veislunni með miklum glæsibrat. Við dönsuðum líka línudans og tókum að lokum upp3 herramenn, þá Hákon, Þorstein og Skúla, og kenndum þeim að dansa en þeir voru frekar lélegir nemendur en þeim mun skemmtilegri.
Ungarnir hennar Maggýjar voru líka með skemmtiatriði og slógu rækilega í gegn. Þau blístruðu, dönsuðu og sungu af mikilli innlifun og tóku sér góðan tíma á sviðinu. Sérstaklega naut Herra Janúar og fyrrum Herra Vesturland sín vel í þessu hlutverki og leiddist ekki athyglin. Þeir bræður sýndu meistaratakta í dansinum og tóku ýmis flókin og skemmtileg spor. Þau enduðu svo á Superman atriði sem náði öllum gestunum úr sætunum og var virkilega gaman að sjá hvað allir gleymdu sér við að klóra sér, veifa og fara á skíði, svo hressilega tóku sumir þátt að rauðvínsglös fengu að fjúka.
Helga Björk Kolludóttir og Jóns sá um veislustjórn og söng líka fyrir Maggý hið frábæra lag Leonards Cohen, Hallelúja með íslenskum texta. Hún stóð sig með prýði þótt ekki væri gott að hafa stjórn á skemmtikröftum. Það var kannski það sem gerði þetta allt svo skemmtilegt að allt var leikið af fingrum fram og bara aukaskemmtiatriði þegar eitthvað fór eins og það átti ekki að fara.
Um tvö voru fáir eftir en þeir skemmtu sér þeim mun betur og þurftum við að lokum að taka hljóðkerfið úr sambandi til að fá gítaristann, Jón hennar Helgu og bræðurna og vini þeirra til að hætta að syngja. Við ætluðum nefnilega að enda partýið á Catalinu sem var þarna rétt hjá. Þangað stormaði svo hersingin syngjandi (kannski ekki við fögnuð íbúa Hamraborgar) en Catalinumenn glöddust örugglega við komu okkar því þar var frekar fámennt áður en við komum, nokkrir Pólverjar sem glaðnaði held ég líka yfir við komu okkar. Þarna var fín músík við okkar hæfi og var dansgólfið hertekið og það glaðnaði örugglega líka yfir tónlistarmanninum sem þarna sat og spilaði og söng. Hann tók meira að segja aukalög fyrir okkur því við vorum svo skemmtileg.
Aðalskemmtiatriðið var samt frekar óundirbúið. Pínulítill Pólverji bauð mér upp í dans og upphófst þá mjög sérstakt dansatriði sem endaði með því að Pólverjinn teygði sig upp og reyndi að snúa mér allhressilega en þar sem hæðarmunur var töluverður tókst ekki betur til en svo að ég endaði á gólfinu og úti í vegg. Aumingja Pólverjinn varð mjög miður sín og hvarf að dansgólfinu eftir margar afsökunarbeiðnir en mér tókst að standa upp og komast í sætið og auðvitað fannst þessum góðu félögum mínum atriðið toppurinn á kvöldinu, allavega þegar ljóst var að gamla konan var óbrotin og heil á húfi. Eftir þetta óvænta skemmtiatriðivar haldið heim og allir rosalega ánægðir með afmælisveislu aldarinnar. Snemma á sunnudagsmorguninn fórum við svo og þrifum salinn, bárum heim allar gjafirnar og afganginn af matnum sem dugði til að metta 100 manna starfslið Öskjuhlíðarskóla á mánudeginum. Eftir það var sest við að horfa á allar myndirnar sem Hafsteinn tók í afmælinu og myndbandsupptöku af öllum skemmtiatriðunum (sem betur fer var upptökustjórinn ekki með á Catalinu) og endurupplifðum við allt gamanið og sáum að það var alveg rétt sem við höfðum haldið, allir höfðu skemmt sér rosalega vel.
Í dag er svo rigning og rok og allt fjúkandi út um allt en það er bara hressandi og gott að lauma sér í náttfötin og leggjast í Lazyboy og rifja upp skemmtilega helgi.

Thursday, October 18, 2007

Nóg að gera

Það er nóg að gera þessa dagana. Undirbúningur fyrir fimmtugsafmæli Maggýjar í fullum gangi.
Við fórum og skreyttum salinn í gær eftir söngæfingu með harmonikkuleikaranum, honum Óla sem er tónmenntakennari í Öskjuhlíðarskóla. Maggý fór svo í dag og bætti um betur og setti sinn stíl á hann.
Jökull varð 3ja ára þann 10. okt og veislan var haldin á laugardaginn og þar var mikið fjör og sá stutti alsæll með hækkandi aldur. Hann var samt dálítið feiminn þegar hann var að blása á kertin með alla þessa athygli á sér. Ég gaf honum svo aukagjöf, heila flugstöð, sem ég keypti í haust á flóamarkaði hjá Bergmáli. Hún var úr eigu Gísla Rúnars leikara og þess vegna orðin fjörgömul en mér sýndist sá stutti vera alsæll með hana og pabbinn líka.
Um kvöldið fór ég með Maggý, Kollu og Jóni á tónleika í Langholtskirkju sem voru til styrktar Krabbameinsfélaginu. Þar sungu Bergþór Pálsson og Bragi sonur hans, Arndís Halla og Auður Gunnarsdóttir. Ég hef nú takmarkað gaman af kvenkyns óperuröddum en Arndís Halla hafði þvílík hljóð að við komum öll vel eyrnahreinsuð heim. Arnar Jónsson og Guðrún Gísladóttir lásu upp úr bók eftir eiginkonu Eggerts Þorleifssonar (man ekki hvað hún heitir). Þetta voru örsögur, minningabrot úr lífi hennar og það var virkilega gaman að hlusta á þær, vil gjarnan eignast þessa bók.
Á sunnudagskvöldið fékk ég Jökul í pössun og við skemmtum okkur ágætlega saman.
Vikan hefur sem sagt verið góð, lítill tími til að láta sér leiðast og nóg að gera.
Nú standa yfir samræmd próf í skólanum sem mættu alveg fara að missa sig, veit ekki hvort þau svara þeim kostnaði sem lagður er í þau. En krakkarnir tóku þessu með ró og gerðu eins vel og þau gátu og það er fyrir öllu.
Núna er ég búin að leggja kjúklingastrimla í marineringu sem ég ætla svo að þræða upp á pinna og grilla annað kvöld og vonandi verður engum afmælisgestum meint af þeim.
Fram undan er svo nýi (gamli) lazyboystóllinn og sjónvarpsgláp. Ég ætla að reyna aftur að setja inn myndir en ég er búin að gera nokkrar tilraunir og þær fara alltaf eitthvað annað en á bloggsíðuna. Vonandi eru þær ekki á flakki á netinu.

Saturday, October 13, 2007

Húsmæðraorlof í Kaupmannahöfn







Um síðustu helgi fór ég í helgarferð til Kaupmannahafnar með Önnu Margréti og Siggu Haralds. Við hittum Ninnu þar en hún var í vinnuferð, á ráðstefnu norrænna sérkennara. Við lentum um hádegi á föstudag og drifum okkur á Hotel Tiffany sem er staðsett rétt hjá járnbrautarstöðinni. Gamalt og notalegt, fengum morgunverðinn í ísskápinn og ný rúnnstykki á hurðarhúninn á morgnana. Þar sem þetta var menningarreisa en ekki verslunarferð drifum við okkur á Strikið til að skoða menninguna en ekki í búðir. Veðrið var himneskt, 15 stiga hiti og glaðasólskin. Mannlífið var fjölbreytt, ungt fólk sem hafði valið kannski miður góða leið í lífinu og eyddi því í gluggaskotum með álpappír og sprautur í hendi, listafólk að leika og spila fyrir fólk í von um að fá smáaur fyrir lífsnauðsynjum, rónar að rísa upp úr sínu næturfleti og svo allt hitt ¨venjulega¨fólkið sem maður tekur kannski ekkert sérstaklega eftir. Við settumst inn á veitingastað og fengum okkur smörrebröd og bjór og héldum svo áfram að rölta þar til tími var kominn til að fá sér kvöldverð og þá snöruðum við okkur inn á Böf og ost og fengum okkur dýrindis krónhjartarsteik, sérstaklega fyrir Þórarinn. Ekki var nú úthaldið mikið því við vorum komnar heim á hótel upp úr 9 og sofnaðar fyrir 10, alla vega sumar.
Á laugardagsmorguninn var ég vakin og þá var búið að útbúa morgunverðarborð enda vön því að fá slíka þjónustu á morgnana og þess vegna alveg sjálfsagt að veita mér hana. Síðan var arkað af stað og nú var stefnan tekin á markað við Israelsgade. Þar var fjörugt mannlíf, margir eigulegir munir og margt að skoða. Ég stóðst ekki forláta saumakassa úr tré, gamlan en vel með farinn og ekki var verra að hann var fullur af gömlu saumadóti frá fyrri eiganda og því algjör fjársjóður. Ég fékk ekki poka utan um gripinn og seljandinn sagði mér að nú hefði ég bara eignast nýmóðins handtösku svo ég spókaði mig með saumakassann i hendinni það sem eftir lifði dags og fannst ekkert athugavert við það en hafði á orði að sennilega hefði ég ekki gert þetta á Laugaveginum hér í borg. Svona verður maður slakur í útlöndum og fullur sjálfstrausts. Þegar við vorum búnar að fá nóg af þessu og búnar að fjárfesta í mörgum eigulegum gripum, jólaskeiðum, hringum, nælum, armböndum, klukkum og fleiru, fórum við aftur á Strikið. Kíktum aðeins í búðir en aðaláherslan var lögð á að borða og fá sér gott hvítvín. Sátum í sólinni fyrir utan eitthvað kaffihús og liðkuðum málbeinið. Að því loknu fórum við aðeins í H og M og þukluðum aðeins á nokkrum flíkum og stormuðum svo heim á hótel að gera okkur klárar fyrir kvöldverð og losa okkur við saumakassann og hitt dótið.
Við borðuðum á Peder Okse með Ninnu, Heiðveigu og Ragnheiði úr Mosó og nú var það villiandarsteik sem mér fannst nú frekar lítilmótleg eftir krónhjartarsteikina kvöldið áður. En salatbarinn var fínn og félagsskapurinn góður og það er fyrir öllu. Um miðnættið röltum við heim, komum við á einum bar og hlustuðum á tónlist og hlógum og skemmtum okkur. Síðan var strikið tekið heim og enn voru vinir okkar í gluggaskotunum að nota sína leið til að skemmta sér en það sem var merkilegt að við fundum ekki fyrir ótta að vera að ganga þarna einar í gegnum skuggahliðar mannlífsins en ég myndi ekki þora að gera þetta hér heima. Við fundum heldur ekki fyrir þessum hraða og stressi sem er hér heima, en kannski vorðum við bara svona slakar og gerðum okkur ekki grein fyrir neinum hættum.
Á sunnudagsmorgun voru rúnnstykkin komin á húninn og borðuð með bestu lyst og svo drifum við okkur út á flugvöll, allt of snemma, en gátum rölt þar um og keypt svolítið af jólagjöfum.
Lentum um hálfþrjú í Keflavík í glaðasólskini, kátar og hressar og alsælar með húsmæðraorlofið.
Ég keyrði svo Siggu heim og kom við hjá Önnu Eym með smásárabót fyrir að komast ekki með og þar endaði ég í þríréttuðum kvöldverði a la Þórarinn. Ekki slæmur endir á frábærri helgi.
Vinnuvikan var svo framundan og ég mætti með öll batterí hlaðin á mánudagsmorgun og hellti mér út í vinnuna og svo var vikan liðið áður en ég vissi af. Nú á ég von á Maggý og nokkrum vinkonum í súpu og bænastund svo nú verð ég að hætta þessu.