Wednesday, December 29, 2010

Jólin 2010

Jólasveinarnir komnir í bæinn.

Snædís búin að kveikja á tveimur aðventukertum.

Púki var ekki hrifinn af myndatökunni.


Ómar, Anne, Carl Thomas og Benedicte komin frá Noregi og fengu íslenskt lambalæri.

Bestu vinkonurnar og makar í skötuveislu á Þorláksmessu

Dóru og Robertsbörn flott og fín á aðfangadagskvöld.
Við heimsóttum Rúnu á Grund á Þorláksmessu. Hún er alltaf jafnfalleg og glaðlynd.

Ég er stolt af barnahópnum mínum.
Vildi bara að ég hefði haft þau öll hjá mér en Jói og fjölskylda héldu sín jól í Njarðvík.

Robert og Dóra sæl og glöð yfir að hafa komist heim til okkar um jólin.

Þetta er yndislegur hópur sem svo sannarlega er hægt að vera stoltur af.

Systurnar fallegar og fínar á aðfangadagskvöld.
Þetta hafa verið yndisleg jól. Dóra og Robert komu heim með hópinn sinn frá Azoreyjum. Ferðalagið tók aðeins lengri tíma en til stóð vegna vetrarríkis í Englandi. Íslendingnum fannst reyndar ekki mikið til um snjóinn en hann var nógur til að allt fór úrskeiðis hjá Heathrow mönnum og fór allt flug úr skorðum. Þau fengu því aukahóteldvöl í London og var spennan orðin töluverð á tímabili hvort þau kæmust heim fyrir jól. En með hjálp góðs manns og æðri máttarvalda þá komust þau heim þann 20. des í stað þess 18.
Hingað kom svo jólasnjórinn á Þorláksmessu og við áttum yndisleg jól hér í Grýtubakkanum. Jói og fjölskylda hélt sín jól í Njarðvík og sáum við því lítið af þeim þessi jólin.
Jólasnjórinn hvarf svo á einni nóttu þegar mikið vatnsveður gekk yfir landið og við tók hálfgert vorveður og stilla.
Á þriðja í jólum fóru svo Dóra, Robert, Snædís, Jói, Guðrún og öll börnin í sumarbústað í Skorradalnum en við gömlu hjónin héldum okkur hér heima.
Ómar, Anne, Carl Thomas og Benedicte komu líka heim frá Noregi en fóru fljótlega norður til að halda jól í faðmi fjölskyldunnar á Siglufirði. Við fáum svo að njóta nærveru þeirra á Gamlárskvöld.
Eftir áramótin snúa svo allir til síns heima, Brandur fer á sjóinn og við tekur nýtt ár sem vonandi færir okkur öllum gleði og hamingju. Með bjartsýni að vopni eru okkur allir vegir færir.
Víst er að best er að fara yfir brúna þegar maður kemur að henni og ekki hafa áhyggjur af því fyrirfram hvort hún sé fær.











Saturday, October 2, 2010

Hóel Hekla september 2010

Þetta fallega par tók vel á móti okkur við komuna á Hótel Heklu.
Bóndinn var ánægður með framtakið að nota þessa helgi til að taka út jólagjöfina frá Snædísi og Fannari frá síðustu jólum. Veðrið var yndislegt og það var vel tekið á móti okkur í sveitinni. Notalegt hótel, gott starfsfólk, frábær matur og umhverfið og heiti potturinn punkturinn yfir i-ið.

Tókum hring um nágrennið á heimleiðinni og þessi dásamlega fjölskylda
bauð okkur velkomin á Flúðum.


Hin dulúðuga Hekla skartaði hvítum kolli og var alls ekkert líkleg til að fara að láta á sér kræla sem er þó spáð í nánustu framtíð að hún geri. Ég var alla vega fegin að hún var róelg meðan við vorum á svæðinu.

Hjálparfoss í Fossá er alltaf jafnfallegur.

Stöng í Þjórsárdal. Gaukur lét ekki sjá sig en kannski var hann bara úti í góða veðrinu að stökkva á stönginni sinni.

Þjóðveldisbærinn var lokaður en flottur að utan.

Við skoðuðum nýju Landeyjarhöfnina og horfðum á Herjólf leggja úr höfn og það gekk áfallalaust. Ákváðum að láta það bíða betri tíma að skreppa og fá okkur ís á Heimaey.








Friday, July 2, 2010

Knörrungar á Arnarstapa

Arnarstapi, Stapafell í bakgrunni.
Falleg vík sem heitir Pumpa.

Þær eru margar náttúruperlurnar á Stapanum.

Gatklettur

Jökull og börnin að klifra á varnargarðinum.

Og þetta er Eyrin sem Snæfellingafélagið á í dag og leigir út til félagsmanna.
Þarna byrjaði Guðbjartur bróðir minn að búa og það var ævintýri líkast að fá að vera þarna hjá þeim fyrir margt löngu.

Við fórum með Snædísi yfir Jökulháls.
Þarna sést vel yfir sveitina mína sem var ægifögur í sólskininu.

Við byrjuðum á að fara í kirkjugarðinn á Búðum, settum blóm á leiði
foreldra minna og Guðbjarts bróður míns.


Við systkinin og mágkonur.
Stella, Gógó, Margteinn, Dúdú og Björk
Haddi passar hundana.

Brandur líkir sér við Bárð Snæfellsás. Karlmennskan í botni.


Jökull, Daníella og Viktoría með einn trölladranginn í baksýn við Stapahöfn.

Birna litla lét sig hafa það og synti í höfninni bláköld.

Brandur, Guðrún, Jói, Viktoría, Daníella, Jökull og Birna litla. Eiríksbúð í baksýn.

Kríurnar voru ekki hrifnar af gestunum og reyndu óspart að reka okkur í burtu en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Litla ættarmótið tókst í alla staði vel, 29 mættu og skemmtu sér vel í 20 stiga hita, logni og sólskini. Kökuhlaðborð í anda mömmu og síðan var grillað og borðað á pallinum og varla nokkur maður var inni við fyrr en spilamennskan byrjaði en það er alltaf mikið spilað þegar þessi hópur hittist. Gömul venja frá því í sveitinni í gamla daga.
Vona að við eigum eftir að hittast aftur að ári.



Saturday, June 12, 2010

Guðrún Jónsdóttir frá Knerri Breiðuvík aldarminning

Í dag þann 12. júní 2010 eru 100 ár liðin frá fæðingu móður minnar, Guðrúnar Jónsdóttur frá Knerri í Breiðuvík. Hún fæddist þann 12. júní 1910 á Bjarnarstöðum í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu. Móðir hennar var Sigríður Halldórsdóttir frá Melum í Árneshrepp á Ströndum og Jón Ólafsson sem var Húnvetningur að ætt og uppruna. Jón afi hafði farið með fyrri konu sinni og fimm dætrum til Vesturheims en hann undi ekki þar og kom einn til baka og kynntist þá Sigríði ömmu minni og eignuðust þau 3 dætur, Jónínu, Eiríku og mömmu sem var yngst. Afi var mikið eldri en amma og þegar mamma var tveggja ára var hann orðinn blindur og ófær um að sjá fyrir henni og dætrunum. Amma tók sig þá upp og fór með þær vestur í Ísafjarðardjúp í kaupamennsku. Á leiðinni á áfangastað kom hún við hjá frænku sinni Guðrúnu og manni hennar í Arnardal. Þau buðust til að taka mömmu að sér og var hún skilin þar eftir og ólst hún þar upp sem fósturdóttir þeirra hjóna. Þar ólust einnig upp 3 önnur fósturbörn, Ína, Dóra og Kalli sem mamma leit alltaf á sem systkini sín. Jónína sagði mér að það hefði verið erfið brottför hjá þeim mæðgum að skilja þá litlu eftir sem stóð grátandi úti í glugga þegar þær riðu úr hlaði. Mamma talaði alltaf mjög vel um fóstru sína og fóstra og þrátt fyrir mikla vinnu, eins og tíðkaðist þá hjá börnum, þá heyrðist aldrei annað hjá henni en að henni hefði liðið vel þarna og haft nóg til hnífs og skeiðar og gott atlæti. Amma þurfti aftur á móti að fara milli bæja í kaupamennsku en ef ég fer rétt með þá enduðu afi og amma saman á Blönduósi hjá Jónínu þar til hann dó. Síðustu árin bjó amma hjá Jónínu og Kjartani á Ísafirði. Afi Jón er jarðaður í Þingeyrarkirkjugarði og fékk ég að vera viðstödd þegar Jón sonur Jónínu setti legstein á leiðið hans þar en amma er jarðsett á Ísafirði.
Mamma fór úr Arnardal 17 ára gömul og fór í kaupamennsku á Akureyri. Hún var lengi hjá Jónatan Marteini skósmið og Guðnýju konu hans. Hún gætti Huldu dóttur þeirra en hún og maður hennar stofnuðu síðar fataverslunina JMJ á Akureyri sem í dag er rekin af dóttur þeirra og eiginmanni. Á sumrin var hún kaupakona úti í Flatey á Skjálfanda.
Árið 1934 ákvað mamma að fara að heimsækja Eiríku systur sína sem bjó á Búðum á Snæfellsnesi. Hún fór með skipi og var sett í land á Arnarstapa. Þar fékk hún hest og fylgdarmann að Búðum. Á leiðinni hitti hún menn sem voru að leggja veg um sveitina. Þar hittust þau pabbi í fyrsta sinn. Líklega hefur pabbi verið ákveðinn í að missa ekki af þessari fallegu stúlku og þegar vikurnar tvær voru liðnar sem mamma ætlaði að vera í heimsókninni var hann búinn að tryggja það að hún færi ekki aftur norður. Þau hófu síðan búskap í Reykjavík á Öldugötunni og pabbi vann hjá Kveldúlfi. Stella fæddist því á sjúkrahúsi í Reykjavík, ein okkar systkina. Við hin fæddumst öll heima og mig minnir að mamma hafi sagt að bóndinn í Syðri-Tungu hafi tekið á móti Marteini þar sem pabbi þurfti að elta ljósmóðurina uppi sem var á leið út á Hellisand en Marteinn mátti ekki vera að því að bíða eftir því.
En afi á Knerri var þá orðinn veikur og farinn að kröftum og vildi að pabbi tæki við búskapnum. Pabbi var ekki hneigður í þá átt en úr því varð að lokum að þau fóru vestur og tóku við búinu. Strax var hafist handa við að byggja lítið steinhús í stað torfbæjarins gamla á hólnum og þar sem þurfti að nýta hverja spýtu úr gamla bænum þá var hann rifinn og um sumarið bjuggu þau í fjárhúsinu og var því ástkær systir mín lögð í jötu eins og frelsarinn forðum.
Afi og amma bjuggu í risinu en afi dó 1957 þegar ég var fjögurra ára gömul og man ég því lítið eftir honum. Á samt minningu um litla hrífu sem hann hafi smíðað handa mér til að ég gæti verið með honum í flekknum. Eins á ég minningu um að hann hafi gefið mér rauð stígvél en það man enginn annar en ég svo kannski er það bara draumur eins og hún móðir mín sagði svo oft um mínar minningar.
Í litla húsinu ólu þau síðan upp okkur systkinin fimm með ömmu á loftinu og þætti það líklega ekki mikið rými í dag fyrir svo marga en víða hefur örugglega verið þrengra í búi en hjá okkur.
Mamma var vakin og sofin yfir velferð okkar, vaknaði fyrst á morgnana til að kveikja upp í kolavélinni til að það væri farið að hlýna þegar aðrir færu á fætur. Seinust fór hún svo í rúmið á kvöldin og hélt því fram undir það síðasta þvi henni fannst hún ekki geta farið að sofa ef einhver var ennþá að brasa úti við. Á næturnar saumaði hún föt á okkur krakkana, það var eini tíminn sem hún hafði til þess frá úti- og matarverkum. Hún hafði yndi af því að vera úti í heyskap og að annast skepnurnar. Henni fannst ekki eins gaman að vera í inniverkum en komst ekki hjá þeim nema meðan Stella var ennþá heima, hún var sú eina sem var treyst fyrir þeim störfum. Karlmenn áttu ekki heima í eldhúsi og þegar örverpið komst á legg var því lítt treystandi í matargerð og hafði sennilega heldur ekki mikinn áhuga þá frekar en í dag.
Mamma var mikill vinnuforkur sem féll aldrei verk úr hendi, ef hún settist niður þá voru prjónarnir teknir fram eða gert við flíkur. Til að halda út daginn sá ég hana setjast niður augnablik við ofninn í eldhúsinu, höfuðið seig þá aðeins niður á bringu og svo var staðið upp og haldið áfram. Iðulega hafði hana dreymt eitthvað merkilegt þessar sekúndur sem hún dottaði. Draumar voru henni hugleiknir og réði hún draumana á margvíslegan hátt. Ef hana dreymdi t.d. naut þá var eitthvert mikilmenni á leiðinni, mýs voru fyrir illu umtali og hvítar kindur fyrir snjókomu.
Mamma hafði hug á námi sem ung stúlka en á þessum tímum var ekki auðvelt fyrir fátæka vinnukonu að öðlast slíkt. Hún kenndi okkur systkinunum öllum að lesa og skrifa og átti þá drauma að sjá okkur öll ganga menntaveginn. Sjálfsagt voru ekki heldur til peningar fyrir því frekar en hjá henni og ekki um að annað að gera en fara að heiman og vinna fyrir sér og stofna heimili. Ég var því sú eina sem lét þennan draum hennar rætast þótt ég líti alls ekki svo á að menntun sé eingöngu falin í skólagöngu og gáfur skulu ekki metnar eftir utanbókarlærdómi sem gleymist oft fljótt.
Síðustu ár mömmu voru erfið vegna veikinda en fram á síðustu stundu var baráttan hörð fyrir sjálfstæði og að geta sinnt sínum verkum. Sem betur fer var síðasta sjúkrahúslegan ekki nema nokkrir mánuðir og er ég þakklát fyrir að hún þurfti ekki að liggja lengur en það ósjálfbjarga. Andlegri reisn hélt hún fram á síðustu stundu þótt líkaminn væri búinn að gefast upp. Hún mundi alla afmælisdaga allra afkomenda sinna og einu sinni hélt hún að minnið væri farið að gefa sig vegna þess að eitt augnablik mundi hún ekki afmælisdag eins barnabarnabarnsins en það kom fljótt eftir smáumhugsun.
Mamma var gjafmild með afbrigðum og passaði upp á að allir fengju eins og að enginn gleymdist. Áður en hún dó var hún búin að gefa mér fimmtugsafmælisgjöfina, fallega klukku, og þar sem hún vissi að hún myndi ekki lifa fermingu síðasta barnabarnsins hennar Snædísar þá lét hún mig hafa þá gjöf fyrirfram. Aldrei eyddi hún krónu í sjálfa sig, allt fór til barnanna. Allir fengu sokka og vettlinga og oftast var seðill inni í vettlingnum.
Mamma hafði mjög gaman af því að lesa en gaf sér aldrei tíma til áðu þess nema inni á sjúkrahúsi en þá las hún mikið. Stundum sá ég hana taka bók, lesa byrjun og endi til að ná efninu en ekki var tími til að lesa alla bókina. Stundum ofbauð henni tíminn sem ég eyddi í að lesa skáldsögur og svoleiðis vitleysu og vildi að ég læsi eitthvað uppbyggilegra eða færi út til að hreyfa mig. Ég þurfti stundum að stelast til að fá lánaðar úrklippur úr blöðunum á næsta bæ og fela mig svo einhvers staðar til að fá að lesa þær í friði. Stundum var svo vasaljósið notað undir sænginni þegar búið var að slökkva á kvöldin.
Ævi mömmu var barátta, hún lifði fyrir börnin sín og að sjá þau komast til manns. Of miklum tíma eyddi hún í að óttast um líf þeirra og limi og oft sá ég hana standa við gluggann í vondum veðrum frávita af ótta ef einhver var á ferð úti í sortanum.
Þess vegna var svo erfitt að upplifa regnið og storminn á jarðarfarardaginn hennar. Ég vona bara að hún hafi verið víðs fjarri í sólskini og logni eftir stormasama ævi.
Blessuð sé minning hennar.

Sunday, May 16, 2010

Helgarferð til Barcelona 22. - 26. apríl 2010

Alltaf svo flottar svona myndir sem maður tekur sjálfur.
Kaþólsk messa í klaustrinu í Montserrat.

Í Montserrat klaustrinu.

Við Sigurbogann á Sant Johan

Montserrat, fjall sagarinnar. Eins og það sé búið að saga út klettana og búa til styttur.

Mjög sérstakt fjall og líka gróðurinn.


La Sagrada Familia kirkjan hans Gaudis.

Brandur var dálítið hrifinn af öllum skútunum.

Í Park Guell garðinum, allt í mósaiki. Efnið sótt í brot sem hent var úr verksmiðjum.
Á einum turninum voru kaffibollar á hvolfi, sennilega af því að Gaudi drakk ekki kaffi.

Slöngugarðurinn í Park Guell.
Undir er súlnatorg en þar hugsaði Gaudi að yrði markaðstorg í skugganum.

Eitt af húsunum hans Gaudis við Gracia götu.

Við skelltum okkur í helgarferð til Barcelona á sumardaginn fyrsta til að fá smáforskot á sumarið. Ferðin út gekk vel, völlurinn opnaðist á hárréttum tíma fyrir okkur. Við gistum á Ayre Hotel Caspe sem er örstutt frá Catalunyutorgin og Römblunni sem á víst að vera frægasta gata Spánar. Við drifum okkur morguninn eftir í kynnisferð um borgina. Sonja Magnúsdóttir fararstjóri sagði okkur allt um arkitektinn Gaudi og sýndi okkur húsin hans sem skera sig frá öðrum vegna sérkennilegs byggingalags og skreytinga sem allar tengjast náttúrunni. Við fórum í Park Guell garðinn en þar teiknaði Gaudi upphaflega einbýlishúsahverfi sem allt átti að vera sem náttúrulegast. Það voru samt aðeins byggð tvö hús og seinna teiknaði Guell þennan fallega garð sem þarna er núna. Miklar mósaikskreytingar setja sitt mark á garðinn sem allar eru unnar úr brotum sem hent var úr verksmiðjum. Síðan fórum við að La Sagrada Familia kirkjunni sem Gaudi byrjaði að teikna um 1830 og er enn í byggingu. Þarna er Gaudi grafinn en síðustu 14 árin bjó hann við hliðina á kirkjunni og helgaði henni allt sitt líf. Því næst var ekið um borgina, niður að höfninni og upp í Montjuichæðina. Þar er sérkennilegur kirkjugarður, allar grafir ofanjarðar, og sagan segir að gestirnir verði að dufti innan 2ja ára og þá hægt að leigja hýbýlin að nýju. Við sáum Ólympiusvæðið og sáum vítt yfir borgina.
Að þessu loknu skelltum við okkur á Römbluna og urðum fyrir vonbrigðum, eintómar túrista- og dýrabúðir, jafnvel hanar og hænur til sölu, matsölustaðir þar sem hvað líktist öðru og verðlagið ekki fyrir Íslendinga með rándýrar evrur. Við enduðum við höfnina og þar heillaðist Brandur af öllum skútunum, tilbreyting frá því að draga hann frá mótorhjólunum.
Við röltum um Port Vell sem er fljótandi svæði, gengum einn hring um mollið og vorum fljót að koma okkur út þegar við vorum búin að reikna út evruverðið, engin verslunarferð í útlöndum í dag.
Frúin var að lokum gengin upp að hnjám í hitanum og gott að komast upp á hótel. Þar gat Brandur leikið sér með fjarstýringuna og árangurslaust leitað að efni sem ekki var talsett á spænsku. Sáum reyndar yfirspenntan fréttamenn sem hafði drifið sig til Íslands að kynna sér eldgosamenningu og virtist yfir sig hrifinn þótt við skildum ekki orð.
Á föstudeginum fórum við í ferð upp í klaustrið í Montserrat, fjall sagarinnar. Sem betur fer kynnti ég mér ekki þessa ferð fyrirfram og vissi ekki að ég væri að fara hátt upp í fjöll en það var mesta furða hvað ég var lítið hrædd. Við sátum smástund í kaþólskri messu hjá munkunum en flýttum okkur svo út í sólskinið að njóta útsýnisins. Horfðum á litla sporvagna ganga beint upp í loftið upp á efstu kletta en létum það vera að taka okkur far með þeim.
Þegar heim var komið röltum við upp að La Sagrada Familia, fengum okkur paellu og óáfengan bjór á litlum útiveitingastað og nutum á meðan skólplyktarinnar sem nóg var af alls staðar. Sennilega það dýrasta sem var keypt í ferðinni, fyrir hrísgrjón með þremur rækjum, brauðbita og bjórinn borguðum við um 9000 krónur.
Sátum síðan í litlum garði fram eftir kvöldi og horfðum á mannlífið sem var ólíkt rólegra og fjölskylduvænna en á Römblunni.
Sunnudagur.
Fórum snemma á fætur og gengum niður Sant Johan í átt að sigurboga þeirra Katalóníumanna. Þar var sá stærsti og skemmtilegasti markaður sem ég hef séð, fólk af ýmsu þjóðerni að selja handverk og mat og virkilega gaman að skoða. Ætlaði að kaupa eitthvað í bakaleiðinni og röltum í gegnum fallegan garð, skoðuðum dýragarð sem var ¨dýr¨garður og síðan niður að höfn til að skoða fleiri skútur. Í bakaleiðinni var komin milljón manns á markaðinn og allur kaupáhugi hvarf, keyptum okkur bara Marokkóakökur og fórum heim í siesta. Um kvöldið fórum við aftur niður að höfn og borðuðum á fínum útiveitingastanð, fengum góðan mat, glaðlega og góða þjónustu og borguðum svipað fyrir það og hrísgrjónin frægu.
Mánudagur.
Tékkuðum okkur út um hádegið og röltum um nágrennið fram til kvölds. Vorum búin að fá þær fréttir að Keflavíkurvöllur væri opinn fyrir okkur og engin útsýnisferð um Ísland í boði.
Rútuferðin út á völl varð dálítið lengri en átti að vera, bílstórinn villtist og eftir mikið hringsól um mjóar einstefnuakstursgötur fékk hann lögreglufylgd að næsta hóteli. Þegar loksins var svo búið að pikka upp alla farþegana keyrði hann á bíl sem ætlaði að lauma sér inn á rútubraut og það tók hálftíma að leysa úr því. Eftir mjög langa innritun sem gekk ótrúlega hægt urðum við hlaupa í gegnum flugstöðina og út í vél og í loftið komumst við á hárréttum tíma og lent í Keflavík um tvöleytið um nóttina. Kalt að koma heim en gott að anda að sér hreinu lofti og alltaf gott að koma heill heim. En það er satt að ef maður vill láta tímann líða hægt þá á maður að ferðast. Þegar maður er að upplifa eitthvað nýtt á hverjum degi þá er eins og hver dagur sé miklu lengri en í rútínunni hérna heima.






Sunday, May 9, 2010

Borgarferð með Jökli Mána

Jökull Máni var hjá okkur í helgardvöl.
Í gær fór hann með afa að bóna bílinn og svo fórum við sund.
Í dag fórum við í borgarferð, gáfum öndunum á tjörninni, fylgdumst með víkingum í Hljómskálagarðinum, pjakkurinn klifraði í trjám og klifurgrindum og öllu því hægt var að klifra í.
Í leiðinni tókum við myndir af þeim styttum bæjarins sem urðu á leið okkar. Það er rétt hjá J'oni Gnarr, þær eru flest allar af körlum og ef þær eru af konum þá eru þær nafnlausar og klæðlitlar. Ætli ég kjósi ekki Besta flokkinn til að úr þessu verði bætt og Hallveig Fróðadóttir fái uppreisn æru við hlið manns síns á Arnarhóli.
Við fengum okkur kaffi, kökur og ís í Kaffi Flóru í Grasagarðinum.
Jökull hafði mestan áhuga á fiskunum í tjörninni.

Og það var klifrað og klifrað og klifrað....

Við vorum svo heppin að hópur víkinga var á hlaupum í kringum Tjörnina. Svo söfnuðust þau saman í Hljómskálagarðinum og þar virtist svikari vera fundinn og mikll leikur í gangi.

Það er svo gaman að klifra í trjám, þótt maður detti og rispi sig pínulítið.
Sannur víkingur beit bara á jaxlinn og leitaði að næsta tré.


Brauðið rann ljúflega niður í fuglana á Tjörninni.
Svanirnir voru tignarlegir og dálítið montnir að sjá.


Þarna fundum við þó fallegt par sem sýndi að kærleikurinn er ofar öllu.


Styttan af Bertel Thorvaldsen. Einn af frægu köllunum.