
Mamma fór úr Arnardal 17 ára gömul og fór í kaupamennsku á Akureyri. Hún var lengi hjá Jónatan Marteini skósmið og Guðnýju konu hans. Hún gætti Huldu dóttur þeirra en hún og maður hennar stofnuðu síðar fataverslunina JMJ á Akureyri sem í dag er rekin af dóttur þeirra og eiginmanni. Á sumrin var hún kaupakona úti í Flatey á Skjálfanda.
Árið 1934 ákvað mamma að fara að heimsækja Eiríku systur sína sem bjó á Búðum á Snæfellsnesi. Hún fór með skipi og var sett í land á Arnarstapa. Þar fékk hún hest og fylgdarmann að Búðum. Á leiðinni hitti hún menn sem voru að leggja veg um sveitina. Þar hittust þau pabbi í fyrsta sinn. Líklega hefur pabbi verið ákveðinn í að missa ekki af þessari fallegu stúlku og þegar vikurnar tvær voru liðnar sem mamma ætlaði að vera í heimsókninni var hann búinn að tryggja það að hún færi ekki aftur norður. Þau hófu síðan búskap í Reykjavík á Öldugötunni og pabbi vann hjá Kveldúlfi. Stella fæddist því á sjúkrahúsi í Reykjavík, ein okkar systkina. Við hin fæddumst öll heima og mig minnir að mamma hafi sagt að bóndinn í Syðri-Tungu hafi tekið á móti Marteini þar sem pabbi þurfti að elta ljósmóðurina uppi sem var á leið út á Hellisand en Marteinn mátti ekki vera að því að bíða eftir því.
En afi á Knerri var þá orðinn veikur og farinn að kröftum og vildi að pabbi tæki við búskapnum. Pabbi var ekki hneigður í þá átt en úr því varð að lokum að þau fóru vestur og tóku við búinu. Strax var hafist handa við að byggja lítið steinhús í stað torfbæjarins gamla á hólnum og þar sem þurfti að nýta hverja spýtu úr gamla bænum þá var hann rifinn og um sumarið bjuggu þau í fjárhúsinu og var því ástkær systir mín lögð í jötu eins og frelsarinn forðum.
Afi og amma bjuggu í risinu en afi dó 1957 þegar ég var fjögurra ára gömul og man ég því lítið eftir honum. Á samt minningu um litla hrífu sem hann hafi smíðað handa mér til að ég gæti verið með honum í flekknum. Eins á ég minningu um að hann hafi gefið mér rauð stígvél en það man enginn annar en ég svo kannski er það bara draumur eins og hún móðir mín sagði svo oft um mínar minningar.
Í litla húsinu ólu þau síðan upp okkur systkinin fimm með ömmu á loftinu og þætti það líklega ekki mikið rými í dag fyrir svo marga en víða hefur örugglega verið þrengra í búi en hjá okkur.
Mamma var vakin og sofin yfir velferð okkar, vaknaði fyrst á morgnana til að kveikja upp í kolavélinni til að það væri farið að hlýna þegar aðrir færu á fætur. Seinust fór hún svo í rúmið á kvöldin og hélt því fram undir það síðasta þvi henni fannst hún ekki geta farið að sofa ef einhver var ennþá að brasa úti við. Á næturnar saumaði hún föt á okkur krakkana, það var eini tíminn sem hún hafði til þess frá úti- og matarverkum. Hún hafði yndi af því að vera úti í heyskap og að annast skepnurnar. Henni fannst ekki eins gaman að vera í inniverkum en komst ekki hjá þeim nema meðan Stella var ennþá heima, hún var sú eina sem var treyst fyrir þeim störfum. Karlmenn áttu ekki heima í eldhúsi og þegar örverpið komst á legg var því lítt treystandi í matargerð og hafði sennilega heldur ekki mikinn áhuga þá frekar en í dag.
Mamma var mikill vinnuforkur sem féll aldrei verk úr hendi, ef hún settist niður þá voru prjónarnir teknir fram eða gert við flíkur. Til að halda út daginn sá ég hana setjast niður augnablik við ofninn í eldhúsinu, höfuðið seig þá aðeins niður á bringu og svo var staðið upp og haldið áfram. Iðulega hafði hana dreymt eitthvað merkilegt þessar sekúndur sem hún dottaði. Draumar voru henni hugleiknir og réði hún draumana á margvíslegan hátt. Ef hana dreymdi t.d. naut þá var eitthvert mikilmenni á leiðinni, mýs voru fyrir illu umtali og hvítar kindur fyrir snjókomu.
Mamma hafði hug á námi sem ung stúlka en á þessum tímum var ekki auðvelt fyrir fátæka vinnukonu að öðlast slíkt. Hún kenndi okkur systkinunum öllum að lesa og skrifa og átti þá drauma að sjá okkur öll ganga menntaveginn. Sjálfsagt voru ekki heldur til peningar fyrir því frekar en hjá henni og ekki um að annað að gera en fara að heiman og vinna fyrir sér og stofna heimili. Ég var því sú eina sem lét þennan draum hennar rætast þótt ég líti alls ekki svo á að menntun sé eingöngu falin í skólagöngu og gáfur skulu ekki metnar eftir utanbókarlærdómi sem gleymist oft fljótt.
Síðustu ár mömmu voru erfið vegna veikinda en fram á síðustu stundu var baráttan hörð fyrir sjálfstæði og að geta sinnt sínum verkum. Sem betur fer var síðasta sjúkrahúslegan ekki nema nokkrir mánuðir og er ég þakklát fyrir að hún þurfti ekki að liggja lengur en það ósjálfbjarga. Andlegri reisn hélt hún fram á síðustu stundu þótt líkaminn væri búinn að gefast upp. Hún mundi alla afmælisdaga allra afkomenda sinna og einu sinni hélt hún að minnið væri farið að gefa sig vegna þess að eitt augnablik mundi hún ekki afmælisdag eins barnabarnabarnsins en það kom fljótt eftir smáumhugsun.
Mamma var gjafmild með afbrigðum og passaði upp á að allir fengju eins og að enginn gleymdist. Áður en hún dó var hún búin að gefa mér fimmtugsafmælisgjöfina, fallega klukku, og þar sem hún vissi að hún myndi ekki lifa fermingu síðasta barnabarnsins hennar Snædísar þá lét hún mig hafa þá gjöf fyrirfram. Aldrei eyddi hún krónu í sjálfa sig, allt fór til barnanna. Allir fengu sokka og vettlinga og oftast var seðill inni í vettlingnum.
Mamma hafði mjög gaman af því að lesa en gaf sér aldrei tíma til áðu þess nema inni á sjúkrahúsi en þá las hún mikið. Stundum sá ég hana taka bók, lesa byrjun og endi til að ná efninu en ekki var tími til að lesa alla bókina. Stundum ofbauð henni tíminn sem ég eyddi í að lesa skáldsögur og svoleiðis vitleysu og vildi að ég læsi eitthvað uppbyggilegra eða færi út til að hreyfa mig. Ég þurfti stundum að stelast til að fá lánaðar úrklippur úr blöðunum á næsta bæ og fela mig svo einhvers staðar til að fá að lesa þær í friði. Stundum var svo vasaljósið notað undir sænginni þegar búið var að slökkva á kvöldin.
Ævi mömmu var barátta, hún lifði fyrir börnin sín og að sjá þau komast til manns. Of miklum tíma eyddi hún í að óttast um líf þeirra og limi og oft sá ég hana standa við gluggann í vondum veðrum frávita af ótta ef einhver var á ferð úti í sortanum.
Þess vegna var svo erfitt að upplifa regnið og storminn á jarðarfarardaginn hennar. Ég vona bara að hún hafi verið víðs fjarri í sólskini og logni eftir stormasama ævi.
Blessuð sé minning hennar.
No comments:
Post a Comment