


Ásrós Ósk og Hera Björk við brennuna.


Við ákváðum daginn fyrir gamlársdag að skella okkur til Siglufjarðar. Veðurspáin var góð nokkra daga fram í tímann, frost og stillur, svo ég ákvað að ég myndi lifa það af að keyra norður án nagladekkja. Brandur fékk að keyra báðar leiðir en aldrei þessu vant treysti ég honum betur en sjálfri mér til að halda bílnum á veginum sem hann gerði með glæsibrag.
Veðrið var einstaklega fallegt, bæði sól og fullt tungl á lofti norður Borgarfjörðinn og ég tók myndir af þessum blindfulla mána af og til alla leiðina frá hinum ýmsu sjónarhornum.
Það er alltaf gaman að koma til Siglufjarðar og ekki er hann síðri á þessum árstíma, húsin uppljómuð og Hvanneyrarskálin fallega upplýst.
Á gamlárskvöld borðaði stórfjölskyldan saman á Hafnargötunni og gæsirnar a la Sævar runnu ljúflega niður. Um miðnættið var flugeldasýning á bakkanum sem hver meðalbjörgunarsveit hefði getað verið stolt af og ég er ekki viss um að ég sé aftur komin með fullkomna heyrn aftur eftir alla skothvellina sem voru aðallega í boði húsráðanda og vinar hans. Við létum okkur nægja að dást að þessu úr vissri fjarlægð og lögðum ekkert til dýrðarinnar. Ég er samt ekki frá því að börnin hafi notið betur litlu flugeldanna og stjörnuljósanna.
Á nýjársdag fórum við í göngutúr um bæinn og um kvöldið borðaði stórfjölskyldan sig inn í nýja árið á Fossveginum.
Daginn eftir brenndum við suður í þessu fallega veðri, komum við í Skorradalnum til að athuga með óðalið sem var í fínu lagi þótt inni væri þriggja stiga frost þrátt fyrir að einn ofn vermi kotið.
Um kvöldið fórum við í kvöldverðarboð til Önnu Margrétar og Guðna og dvöldum þar fram á nótt svo það er ekki hægt að segja annað en við höfum verið félagslega vel sett í kringum þessi áramót.
No comments:
Post a Comment