Þá er vinnudagur 2 á enda. Það er nóg að gera við að skipuleggja sérkennsluna og heilinn fullnýttur eftir daginn. Eftir svona frí þarf maður að þjálfa sig upp í að hugsa á ný eða réttara sagt skipuleggja hugsanir sínar. Í morgun hélt Lone Jensen fyrirlestur um það hvernig við getum haft það skemmtilegt í vinnunni. Vakti mann til umhugsunar um hvað það er mikilvægt að hafa gaman af því sem maður er að gera og að velja sér viðhorf sem vænlegt er til árangurs. Hún byrjaði á því að segja eftirfarandi brandara vegna þess að hún er dönsk og talar ekki alveg kórrétta íslensku.
Íslendingur og Dani hittust á bar og drakk Íslendingurinn ótæpilega eins og hans var von og vísa. Dananum leiddist þetta og hafði orð á því honum fyndist Íslendingurinn orðinn ógeðslega fullur. Íslendingurinn játti því og sagði: En kæri vinur á morgun verð ég orðinn eðlilegur aftur en þú verður ennþá Dani!!
Og nú ætlum við að vera alveg ofboðslega skemmtileg í vinnunni í vetur, dansa conga í frímínútum, henda hlaupköllum hvert í annað og mæta alltaf með rétt viðhorf á morgnana, brosandi út að eyrum og ekkert væl um léleg laun, erfiða nemendur eða annað sem við venjulega látum fara í taugarnar á okkur. En svo er annað mál hvernig við verðum þegar við komum heim til okkar heittelskaða á kvöldin, kannski verðum við þá búin að fá nóg af skemmtilegheitunum og verðum að fá útrás á fjölskyldumeðlimunum. En sem betur fer hef ég þó alltaf spilaklúbbinn af og til til að skeyta skapi mínu á.
Í gærkvöldi var spilað í Álmholtinu hjá Önnu Eym. Þar var kínverskt þema í gangi og var undirrituð klædd í kínverskan slopp strax við komu. En ekki veit ég hvort geitungurinn sem læddi sér í sherryglasið hennar Önnu var kínverskur eður ei en alla vega beit hann vel frá sér þegar Anna ætlaði að stela sherryinu frá honum. Upphófust mikil læti sem geitungurinn slapp ekki lifandi frá en sem betur fer gerði Anna það þótt um tíma minnti hún mjög á eina af okkar elstu teiknimyndapersónum hann Andrés önd. Eftir leit á netinu um geitungabit var vel fylgst með hvort hún fengi tárabjúg, nefrennsli eða andþyngsli en sem betur fer bar ekki á slíku. En spilamennskan gekk ekki sem skyldi hjá henni og gott að geta kennt æðvængjunni um. Ég slapp sem betur fer við geitunginn sem elti mig um allan garðskálann og reyndi að ná frá mér sherryinu mínu og dugði ekki einu sinni að ota að honum baneitruðum sígarettureyk sem hingað til hefur þó reynst ágætis vörn gegn ýmsum aðskotadýrum.
Það sem eftir lifði kvölds skemmtum við okkur ágætlega, sumir betur en aðrir, þ.e.a.s. þeir sem unnu, þeir tapsáru sleiktu sárin fram eftir nóttu en hugguðu sig við að tap í spilum vísar á óendanlega hamingju í ástamálunum.
Í dag fór ég á fund hjá Maggý frænku minni en þar var verið að skipuleggja för okkar og siggu á Grund á danska daga í Stykkishólmi en þar ætlum við gerast sölukonur miklar, selja ullarsokka, kleinur og kaffi en samt aðallega skemmta okkur og tala dönsku út í eitt. Skemmtilegir gestir fá svo kannski gammel dansk og vísnasöng á bak við. Var það ekki þannig hjá dönsku kaupmönnunum í gamla daga? Salan fer fram í húsinu hans Magna (Maggýjarsonar)og erum við með sérstakt leyfi frá sýslumanni enda Magni lögga og leigjandi hússins líka lögga. Við verðum því undir sérstakri lögregluvernd allan tímann. Brandur fær að koma með og vera kaffikarl og sendill eða hvað annað sem okkur dettur í hug að munstra hann í, hann er öllu vanur a.m.k. síðan hann giftist mér. Nóg að sinni kæru lesendur ef þið hafið nennt að lesa svona langt.
Thursday, August 16, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Hæ hæ,
Fékk innblástur frá þér og er byrjuð að blogga líka. Það er alveg rétt hjá þér, það er rosalega gaman að lesa þetta.
Post a Comment