Sunday, May 16, 2010

Helgarferð til Barcelona 22. - 26. apríl 2010

Alltaf svo flottar svona myndir sem maður tekur sjálfur.
Kaþólsk messa í klaustrinu í Montserrat.

Í Montserrat klaustrinu.

Við Sigurbogann á Sant Johan

Montserrat, fjall sagarinnar. Eins og það sé búið að saga út klettana og búa til styttur.

Mjög sérstakt fjall og líka gróðurinn.


La Sagrada Familia kirkjan hans Gaudis.

Brandur var dálítið hrifinn af öllum skútunum.

Í Park Guell garðinum, allt í mósaiki. Efnið sótt í brot sem hent var úr verksmiðjum.
Á einum turninum voru kaffibollar á hvolfi, sennilega af því að Gaudi drakk ekki kaffi.

Slöngugarðurinn í Park Guell.
Undir er súlnatorg en þar hugsaði Gaudi að yrði markaðstorg í skugganum.

Eitt af húsunum hans Gaudis við Gracia götu.

Við skelltum okkur í helgarferð til Barcelona á sumardaginn fyrsta til að fá smáforskot á sumarið. Ferðin út gekk vel, völlurinn opnaðist á hárréttum tíma fyrir okkur. Við gistum á Ayre Hotel Caspe sem er örstutt frá Catalunyutorgin og Römblunni sem á víst að vera frægasta gata Spánar. Við drifum okkur morguninn eftir í kynnisferð um borgina. Sonja Magnúsdóttir fararstjóri sagði okkur allt um arkitektinn Gaudi og sýndi okkur húsin hans sem skera sig frá öðrum vegna sérkennilegs byggingalags og skreytinga sem allar tengjast náttúrunni. Við fórum í Park Guell garðinn en þar teiknaði Gaudi upphaflega einbýlishúsahverfi sem allt átti að vera sem náttúrulegast. Það voru samt aðeins byggð tvö hús og seinna teiknaði Guell þennan fallega garð sem þarna er núna. Miklar mósaikskreytingar setja sitt mark á garðinn sem allar eru unnar úr brotum sem hent var úr verksmiðjum. Síðan fórum við að La Sagrada Familia kirkjunni sem Gaudi byrjaði að teikna um 1830 og er enn í byggingu. Þarna er Gaudi grafinn en síðustu 14 árin bjó hann við hliðina á kirkjunni og helgaði henni allt sitt líf. Því næst var ekið um borgina, niður að höfninni og upp í Montjuichæðina. Þar er sérkennilegur kirkjugarður, allar grafir ofanjarðar, og sagan segir að gestirnir verði að dufti innan 2ja ára og þá hægt að leigja hýbýlin að nýju. Við sáum Ólympiusvæðið og sáum vítt yfir borgina.
Að þessu loknu skelltum við okkur á Römbluna og urðum fyrir vonbrigðum, eintómar túrista- og dýrabúðir, jafnvel hanar og hænur til sölu, matsölustaðir þar sem hvað líktist öðru og verðlagið ekki fyrir Íslendinga með rándýrar evrur. Við enduðum við höfnina og þar heillaðist Brandur af öllum skútunum, tilbreyting frá því að draga hann frá mótorhjólunum.
Við röltum um Port Vell sem er fljótandi svæði, gengum einn hring um mollið og vorum fljót að koma okkur út þegar við vorum búin að reikna út evruverðið, engin verslunarferð í útlöndum í dag.
Frúin var að lokum gengin upp að hnjám í hitanum og gott að komast upp á hótel. Þar gat Brandur leikið sér með fjarstýringuna og árangurslaust leitað að efni sem ekki var talsett á spænsku. Sáum reyndar yfirspenntan fréttamenn sem hafði drifið sig til Íslands að kynna sér eldgosamenningu og virtist yfir sig hrifinn þótt við skildum ekki orð.
Á föstudeginum fórum við í ferð upp í klaustrið í Montserrat, fjall sagarinnar. Sem betur fer kynnti ég mér ekki þessa ferð fyrirfram og vissi ekki að ég væri að fara hátt upp í fjöll en það var mesta furða hvað ég var lítið hrædd. Við sátum smástund í kaþólskri messu hjá munkunum en flýttum okkur svo út í sólskinið að njóta útsýnisins. Horfðum á litla sporvagna ganga beint upp í loftið upp á efstu kletta en létum það vera að taka okkur far með þeim.
Þegar heim var komið röltum við upp að La Sagrada Familia, fengum okkur paellu og óáfengan bjór á litlum útiveitingastað og nutum á meðan skólplyktarinnar sem nóg var af alls staðar. Sennilega það dýrasta sem var keypt í ferðinni, fyrir hrísgrjón með þremur rækjum, brauðbita og bjórinn borguðum við um 9000 krónur.
Sátum síðan í litlum garði fram eftir kvöldi og horfðum á mannlífið sem var ólíkt rólegra og fjölskylduvænna en á Römblunni.
Sunnudagur.
Fórum snemma á fætur og gengum niður Sant Johan í átt að sigurboga þeirra Katalóníumanna. Þar var sá stærsti og skemmtilegasti markaður sem ég hef séð, fólk af ýmsu þjóðerni að selja handverk og mat og virkilega gaman að skoða. Ætlaði að kaupa eitthvað í bakaleiðinni og röltum í gegnum fallegan garð, skoðuðum dýragarð sem var ¨dýr¨garður og síðan niður að höfn til að skoða fleiri skútur. Í bakaleiðinni var komin milljón manns á markaðinn og allur kaupáhugi hvarf, keyptum okkur bara Marokkóakökur og fórum heim í siesta. Um kvöldið fórum við aftur niður að höfn og borðuðum á fínum útiveitingastanð, fengum góðan mat, glaðlega og góða þjónustu og borguðum svipað fyrir það og hrísgrjónin frægu.
Mánudagur.
Tékkuðum okkur út um hádegið og röltum um nágrennið fram til kvölds. Vorum búin að fá þær fréttir að Keflavíkurvöllur væri opinn fyrir okkur og engin útsýnisferð um Ísland í boði.
Rútuferðin út á völl varð dálítið lengri en átti að vera, bílstórinn villtist og eftir mikið hringsól um mjóar einstefnuakstursgötur fékk hann lögreglufylgd að næsta hóteli. Þegar loksins var svo búið að pikka upp alla farþegana keyrði hann á bíl sem ætlaði að lauma sér inn á rútubraut og það tók hálftíma að leysa úr því. Eftir mjög langa innritun sem gekk ótrúlega hægt urðum við hlaupa í gegnum flugstöðina og út í vél og í loftið komumst við á hárréttum tíma og lent í Keflavík um tvöleytið um nóttina. Kalt að koma heim en gott að anda að sér hreinu lofti og alltaf gott að koma heill heim. En það er satt að ef maður vill láta tímann líða hægt þá á maður að ferðast. Þegar maður er að upplifa eitthvað nýtt á hverjum degi þá er eins og hver dagur sé miklu lengri en í rútínunni hérna heima.






Sunday, May 9, 2010

Borgarferð með Jökli Mána

Jökull Máni var hjá okkur í helgardvöl.
Í gær fór hann með afa að bóna bílinn og svo fórum við sund.
Í dag fórum við í borgarferð, gáfum öndunum á tjörninni, fylgdumst með víkingum í Hljómskálagarðinum, pjakkurinn klifraði í trjám og klifurgrindum og öllu því hægt var að klifra í.
Í leiðinni tókum við myndir af þeim styttum bæjarins sem urðu á leið okkar. Það er rétt hjá J'oni Gnarr, þær eru flest allar af körlum og ef þær eru af konum þá eru þær nafnlausar og klæðlitlar. Ætli ég kjósi ekki Besta flokkinn til að úr þessu verði bætt og Hallveig Fróðadóttir fái uppreisn æru við hlið manns síns á Arnarhóli.
Við fengum okkur kaffi, kökur og ís í Kaffi Flóru í Grasagarðinum.
Jökull hafði mestan áhuga á fiskunum í tjörninni.

Og það var klifrað og klifrað og klifrað....

Við vorum svo heppin að hópur víkinga var á hlaupum í kringum Tjörnina. Svo söfnuðust þau saman í Hljómskálagarðinum og þar virtist svikari vera fundinn og mikll leikur í gangi.

Það er svo gaman að klifra í trjám, þótt maður detti og rispi sig pínulítið.
Sannur víkingur beit bara á jaxlinn og leitaði að næsta tré.


Brauðið rann ljúflega niður í fuglana á Tjörninni.
Svanirnir voru tignarlegir og dálítið montnir að sjá.


Þarna fundum við þó fallegt par sem sýndi að kærleikurinn er ofar öllu.


Styttan af Bertel Thorvaldsen. Einn af frægu köllunum.