Saturday, November 24, 2007

Húsmæðraorlof í Hálsasveit

Bara svona til að komast í jólaskap dálítið snemma.

Piparkökubakstur fyrir síðustu jól.

Kandís litli hennar Maggýjar undi sér vel með
okkur, enda eini karlmaðurinn.


Rúna Annell, Roman Anton og Kara Björk í Skógarbæ.

Jökull Máni og Viktoría Rós í heimsókn hjá ömmu og afa.

Við erum stundum eins og tvíburar frænkurnar
sérstaklega í nýju íslensku búingunum frá Stellu.


Jökull Máni flottur í tauinu.


Helgina 9.-11. nóvember fórum við Maggý í sumarbústað KÍ í Hálsasveit í Borgarfirði. Þetta var svo sannarlega húsmæðraorlof eins og það getur best verið. Við keyptum tilbúna heilsurétti sem aðeins þurfti að hita og Maggý var svo nösk í innkaupunum að við þurftum ekki að fara með neitt heim aftur. Okkur gekk dálitið illa að finna bústaðinn, sem er í landi Signýjarstaða, vorum ekki búnar að skoða kortið nægilega vel. Við byrjuðum því á því að fara heim að bænum, keyrðum eftir nýjum vegi sem var ekki upp á sitt besta en komum þá að hálfbyggðu útihúsi og leist ekki á að hafa ekki þak yfir höfuðið yfir helgina. Við bönkuðum því upp á á bænum og stórfalleg heimasæta sagði okkur að fara aðeins lengra og þá fyndum við bústaðinn. Þegar við vorum komnar þangað var ansi erfitt að sjá hvaða bústaður væri sá rétti því þeir voru allir frekar langt frá vegi og þurftum við þvi að keyra heim að þeim til að sjá númerin. Við römbuðum samt á þann rétta og komumst þá að raun um að bústaðurinn var splunkunýr en við héldum að hann væri gamall þar sem þetta var eini bústaðurinn sem var laus þessa helgi. Líklega var það vegna þess að þarna er ekki heitur pottur. En þetta er virkilega fallegt hús með fallegum húsbúnaði og mjög hlýlegur. Ekki spillti fyrir að það er langt á milli húsa og ekki var sála í hinum. Þarna ríkti því algjör kyrrð og friður og það var það sem við vorum að sækjast eftir.
Við lentum samt í smáerfiðleikum með að fá vatn í kranana en eftir nokkrar hringingar náðum við í eiganda bústaðarins sem er lögreglumaður á Akranesi og hann leiðbeindi okkur með að finna hvar skrúfað var frá vatninu. Eftirlitsmaðurinn hafði sem sagt eitthvað gleymt sér en hann kom seinna um kvöldið og tékkaði á okkur.
Eftir heilsusamlegam kvöldverð settumst með prjónana fyrir framan sjónvarpið á náttfötunum, sem við vorum reyndar í þangað til við fórum heim.
Helgin leið svo við prjónaskap og lestur og Kandís, litli hundurinn hennar Maggýjar, fékk meira að segja nýja ullarpeysu svo hann gæti farið með mér út að reykja.
Veðrið var yndislegt, logn og smáfrost og við vorum mjög ánægðar með húsmæðraorlofið.
Ég á örugglega eftir að fara aftur í þennan fallega bústað og það væri örugglega yndislegt að vera þarna yfir jólin.
Þegar við komum heim skelltum við okkur í sparifötin en Maggý bauð okkur Þúfutittlingunum í Borgarleikhúsið að sjá leikritið Dagur vonar. Við vorum mjög ánægðar með leikritið og ég man ekki eftir að hafa fyrr tárast í leikhúsi en tilþrifin voru slík að ég hef sjaldan séð áhrifameiri sýningu.
Síðasta helgi var aftur á móti ömmuhelgi. Jökull Máni fékk að vera hjá ömmu bæði laugardag og sunnudag meðan mamma og pabbi voru að vinna. Við undum okkur vel saman og ég gat ekki séð að honum leiddist neitt þótt við værum bara hérna heima í rólegheitum. Nýja þvottavélin mín fékk óspart að sanna sig en sú gamla brann yfir viku áður. Það er alltaf svo gaman að fá nýja vinnukonu á heimilið.
Í skólanum er jólastressið aðeins farið að segja til sín, ekki bara hjá börnunum heldur hjá okkur fullorðna fólkinu líka. Við þurfum að gæta þess að láta ekki áreitið hafa áhrif á okkur heldur njóta þess að vera til. Reyndar er ég komin af stað með jólahreingerningar, búin að taka eldhúsið í gegn, fékk reyndar utanaðkomandi hjálp til að koma mér í gang en öll hjálp er alltaf vel þegin. Nú er mánuður til jóla og þetta verða gleðileg jól þar sem öll fjölskyldan verður hér samankomin á aðfangadagskvöld og langt síðan það hefur gerst. Við hlökkum mikið til að hafa útlagana okkar aftur hérna á jólum.
Jói, Guðrún, Viktoría og Jökull komu í heimsókn í morgun og fengu nýbakaðar jólasmákökur úr Bónus. Þau eru að fara um næstu helgi til Boston og voru að fá lánaðar töskur undir allan varninginn sem þau ætla að kaupa. Vonandi verða tollararnir góðir við þau þegar þau koma til baka.

Thursday, November 8, 2007

Vetrarfrí í Berlín

Best Western Euro Hotel Sonnenallee 6 Berlín

Kapparnir með svipurnar á Potsdamen Platz.


Við Brandenburgarhliðið.



Í körfustólnum meðan Kúrdar mótmæltu tyrkjum.




Sjónvvarpsturninn séður frá bátnum.





Beðið á hótelinu eftir að fara heim.


Vetrarfrí hjá mér og landlega hjá Brandi fóru saman svo við skelltum okkur til Berlínar. Við lögðum af stað á föstudag og vorum komin til Berlín um 8 um kvöldið. Það var dálítið skrýtið að fara í gegnum Leifsstöð sem var eins og hersetin af lögregluönnum sem voru að gera sig klára í að taka á móti óvelkomnum gestum sem væntanlegir voru til landsins. Það rifjaðist upp fyrir mér hvað það tók á taugarnar forðum þegar ég var að fara mínar fyrstu ferðir til útlanda, að þurfa að fara í gegnum herstöð til að komast út úr mínu eigin landi.
Vonandi endurtekur sú saga sig ekki en ég las einhvers staðar að við hefðum þurft að berjast fyrir frelsi, en nú þyrftum við að læra að fara með það.
Við lentum í Berlín um áttaleytið um kvöldið og það var engin viðhöfn þar í móttöku. Engin leit, ekki einu sinni skoðuð vegabréf og við örkuðum út í næsta leigubíl sem flutti okkur heilu og höldnu á hótelið sem ég hafði pantað án þess að vita nokkuð hvað ég var að panta. Var orðin dálítið óróleg hvort það væri kannski af lakari sortinni en það reyndist vera sallafínt. Lítið og notalegt og ljúf og persónuleg þjónusta. Við fengum herbergi á 6. hæð og morgunverðarsalurinn var við hliðina á því svo við hefðum þess vegna getað farið á náttfötunum í morgunmat ef við hefðum þorað.
Laugardeginum eyddum við í miðborginni. Lestakerfið er einfalt, þegar maður er búinn að læra á það, en einhvern veginn finnst mér nú skemmtilegra að ferðast um ofanjarðar. Hugsaði samt til þess að það gæti nú verið þægilegt að hafa svona kerfi hérna heima, laus við rigningu, rok og snjókomu.
Þegar við komum upp á yfirborðið vorum við stödd við ána Spree sem rennur í gegnum borgina og ákváðum að taka stefnuna á Potsdamer Platz. Á leiðinni sáum við smábút af gamla Berlínarmúrnum og reyndum að ímynda okkur hvernig lífið var þarna þegar þessi múr var reistur árið 1961 á einni nóttu og Berlínarbúar urðu að vera snöggir að ákveða hvoru megin múrsins þeir vildu vera. Það er einhvern veginn erfitt að hugsa sér að það skuli vera svona stutt síðan hann var brotinn niður og borgarbúar urðu aftur ein heild.
Á Potzdamer Platz blasti við tilbúin skíðabrekka með alvöru snjó og fjallmyndarlegum karlmönnum í þjóðlegum búningum með sérkennilegar svipur. Þarna var auglýsingaherferð í gangi fyrir skíðasvæði í Salzburg. Mennirnir sveifluðu svipunum mjög fimlega en þær voru með stálkúlur á endunum sem þeir slógu saman og við það myndaðist ærandi hávaði svo við vorum með hellu fyrir eyrunum lengi á eftir. Veit ekki alveg hvað þetta átti með skíðaíþrótt að gera. Síðan tók við lúðrasveit og út um allt voru litlir bjálkakofar þar sem verið var að selja jólaglögg og pylsur og jólastemming lá í loftinu.
Næst gengum við að Brandenburgarhliðinu, fram hjá minnisvarða um helför Gyðinga, en það eru steinblokkir sem hægt er að ganga inn á milli. Eftir stutta dvöl við Brandenburg fór að hellirigna svo við skelltum okkur inn í rútu og fórum í tveggja tíma skoðunarferð um borgina og sáum helstu byggingar og sögustaði. Eftir það fórum við aftur niður í jörðina og brunuðum heim neðanjarðar. Þá var að leita að einhverjum stað til að borða á en í hverfinu, sem heitir Neukölln, var fátt um fína drætti en við fundum samt lítinn þrifalegan stað og fengum þar ágætis nautasteik. Í þessu hverfi og því næsta sem heitir Kreusberg búa margir innflytjendur, aðallega Tyrkir og sennilega Kúrdar. Hótelið okkar var við torg sem heitir Hermans Platz, og á sunnudeginum þegar við komum heim eftir bæjarrölt sáum við tugi lögreglubíla sem keyrðu inn á torgið með blikkandi ljós. Mitt litla hjarta fór að sló dálítið örar og ég hélt að nú væri ég að lenda í einhverju uppþoti sem ég hefði ekki pantað. Lögreglubílarnir voru dágóða stund í röð á torginu en hurfu svo mér til mikils léttis. Við sáum svo í sjónvarpinu um kvöldið og blöðunum daginn eftir að Kúrdar höfðu verið þarna með mótmæli gegn Tyrkjum og að 1000 lögreglumenn hefðu verið á staðnum til að stilla til friðar. Ef við hefðum komið hálftíma fyrr upp úr lestargöngunum hefðum við lent í miðjum hópnum. Mikið var ég fegin að hafa setið þessum hálftíma lengur á útiveitingastaðnum og drukkið kaffið mitt heldur en að lenda í því. Brandur var reyndar hálffúll yfir að missa af þessu.
Þennan dag fórum við á Alexander Platz en þar er Sjónvarpsturn sem er ca 270 m hár. Ég var dregin upp í hann nauðug viljug. En ég lifði það af og var reyndar upp með yfir að hafa ekki látið lofthræðsluna sigra mig. Við sáum yfir alla borgina og horfðum niður á ¨litla¨ hótelið hennar Önnu og Þórarins, Park Inn, sem er aðeins 37 hæðir. Eftir þessa sigurför skoðuðum við litla Maríukirkju, kveiktum þar á kerti og settum lítinn mósaikbút í listaverk sem gestir fá að taka þátt í að búa til og borga fyrir það að sjálfsögðu, á einhverju verða kirkjunnar menn að lifa.
Síðan röltum við niður að ánni Spree og fórum í siglingu í sólskini og blíðu. Eftir það röltum við um göturnar í kring og settumst inn á fyrrnefndan útiveitingastað og sátum þar með kaffi og eplaköku í körfustólum meðan Kúrdar mótmæltu Tyrkjum á torginu við hótelið okkar.
Mánudagur var svo heimferðardagur en ekki flogið fyrr en um kvöldið svo við röltum bara um okkar ¨heima¨hverfi í blíðskaparveðri. Gátum aðeins þreifað á tuskum í Karstadt sem var við hliðina á hótelinu og svo var stefnan tekin heim á klakann. Það var aðeins meira eftir okkur tekið við brottför heldur en komu og ég fékk heilmiklar þreifingar í hliðinu en það píptu á mig öll tæki og ég var farin að halda að ég yrði handtekin á staðnum og var farin að hugsa hvort það hefðu verið settir í mig stálliðir án þess að ég vissi en sem betur fer var mér sleppt eftir heilmikla þuklun. Brandur fékk enga slíka meðferð og var hálfspældur held ég.
Heim komumst við heilu og höldnu en það var dálitið erfitt að detta aftur inn í vinnuna strax morguninn eftir en það vandist.
Nú er Brandur aftur farinn út á sjó og ég ætla að nota helgina í afslöppun og prjónaskap í sumarbústað í Borgarfirði með Maggý frænku. Engin ástæða til að hanga heima og skúra, heimilisverkin eru svo trygglynd að þau fara ekki neitt á meðan.