Sunday, August 26, 2007

26. ágúst sólskinsdagur

Það er rétt sem ég heyrði í útvarpinu í vikunni að sumarið ætlar að dragast fram á haust. Sólin skín enn og hitastigið í kringum 15 stig. Við ákváðum að vera heima þessa helgi, man ekki hvenær við vorum síðast heima um helgi, og kominn tími á tiltekt og rólegheit. Um síðustu helgi fórum við á danska daga í Stykkishólmi með Maggý, Siggu á Grund og honum Guðmundi , hundinum hennar Siggu. Við fengum gistingu hjá Magna á Víkurvegi 3 og breyttum húsinu í kaffihús á laugardeginum. Þar var frekar þröngt því auk Magna og löggunnar sem hefur leigt húsið í sumar voru tvær aðrar löggur búnar að fá næturgistingu sem við vissum ekki um. Þarna voru því auk okkar fjögurra, fjórar löggur og þrír hundar, þar af einn fíkniefnahundur. Það var því dálítið bras að finna öllum rúm til að sofa í sem endaði með því að Magni lá á eldhúsgólfinu á loftlausri vindsæng þegar ég skreið á fætur á laugardagsmorguninn að gera klárt til að steikja kleinur. Við Sigga steiktum 250 úrvalskleinur á mettíma og Maggý hengdi alla ullorsokkana sem hún var búin að prjóna á snúru utan á húsið. Við skreyttum húsið í dönskum stíl eins og flestir Hólmarar voru búnir að gera, rauð og hvít jólasería, rauðar rellur og danskir fánar og svo töluðum við auðvitað dönsku alla helgina, eða þannig. Það var nú ekki mikil örtröð í kleinusölunni enda vorum við ekki í aðalgönguleiðinni þótt við værum rétt við miðbæinn. Þegar leið á daginn leist Siggu ekkert á umsvifin og batt á sig körfu sem við fylltum af kleinum og Maggý setti glös og kaffikönnu í tösku og svo örkuðu þær af stað í bæinn að selja gestum og gangandi. Ég varð eftir og passaði húsið enda enginn sölumaður eins og allir vita, held að ég hafi selt 4 kleinur eða svo. Þær seldu grimmt vinkonurnar og Brandur fylgdi þeim eftir og filmaði þær án þeirrar vitundar. Um kvöldið fannst samt Stellu systur minni við lítið hafa borið úr býtum og heimtaði að fara með körfuna út á tjaldstæði. Haddi keyrði hana þangað því ekki þorði ég að fara með henni og vinkonurnar orðnar lúnar. Stella kom heim eftir korter og búin að selja 100 kleinur og það er augljóst að sölumannshæfileikarnir eru henni í blóð bornir en örverpið hefur ekki fengið mikið af þeim. Um kvöldið ákváðum við Brandur að skella okkur til Ólafsvíkur og pöntuðum gistingu í Hruna því ekki leist okkur á að sofa aftur á vindsænginni sem við sváfum á fyrri nóttina. Þar var tekið vel á móti okkur og héldum við vöku fyrir þeim fram eftir nóttu og var húsmóðirin í Hruna orðin ansi framlág þegar við leyfðum henni loksins að fara að sofa. Eftir staðgóðan morgunverð í boði þeirra hjóna fórum við niður í Lindarholt og tókum hús á Stellu og Hadda og fengum ennþá meira að borða. Veðrið var mjög gott alla helgina en samt albest á sunnudeginum, glampandi sól og heiðskír himinn og ákváðum við því að keyra yfir Jökulháls,
Mér fannst tími til kominn að ég kæmist upp að Jökli þar sem ég bjó við rætur hans fram að tvítugu en aldrei farið upp að honum áður. Nú væri ekkert til fyrirstöðu að fara þar sem við værum komin á jeppa en ég uppgötvaði fljótt að það þarf engan jeppa til að fara þarna yfir, rennifæri og lítill Jaris fór á undan okkur yfir. Útsýnið var stórfenglegt ofan af hálsinum og ég er ekki frá því að við höfum grillt í austurströnd Ameríku í vestri!!!
Þessi ferð toppaði sumarið sem hefur þó verið mjög skemmtilegt og nú get ég alla vega státað af því að hafa komið upp að Jökli. Hann er nú samt orðinn svipur hjá sjón, því hann hefur minnkað mikið síðan ég átti heima á þessum slóðum. Næsta sumar ætlum við svo að fara aftur og fara þá upp frá Arnarstapa til að sjá betur útsýnið til norðurs, kannski sé ég þá Norðurpólinn ef vel viðrar.
Vikan sem nú er á enda er búin að vera annasöm enda ekki á hverju hausti sem ég fæ deildarstjórastöðu í hausinn þegar ég mæti til vinnu. Ég þurfti að vekja upp fullt af sofandi heilasellum til að ná að skipuleggja sérkennsluna og koma mér inn í það að þurfa að hugsa um eitthvað annað en sjálfa mig en vonandi er þetta að mestu komið af stað og sem flestir sáttir.
Það er reyndar erfitt að gera öllum til hæfis og sérstaklega kennurum.
Vikan fór líka í flutninga með Maggý en hún fékk nýju íbúðina sína á mánudaginn og vinir og vandamenn hjálpuðust að við þrífa og flytja með henni. Á morgun byrjar hún í lyfjameðferð og við vinkonur hennar erum búnar að stofna stuðningshóp í kringum hana sem kallast Þúfutittlingarnir og ætlum að skiptast á við að hjálpa henni í gegnum hana. Hún stendur þetta örugglega af sér eins og allt annað en sem betur fer á hún traustan og góðan vinahóp sem stendur með henni í stríðu og blíðu. Núna erum við að fara að sækja hana austur að Sólheimum en þar er hún búin að vera síðan á fimmtudag í boði Bergmáls sem er líknarfélag sem Kolbrún Karlsdóttir frænka okkar stjórnar.

Thursday, August 16, 2007

16. ágúst

Þá er vinnudagur 2 á enda. Það er nóg að gera við að skipuleggja sérkennsluna og heilinn fullnýttur eftir daginn. Eftir svona frí þarf maður að þjálfa sig upp í að hugsa á ný eða réttara sagt skipuleggja hugsanir sínar. Í morgun hélt Lone Jensen fyrirlestur um það hvernig við getum haft það skemmtilegt í vinnunni. Vakti mann til umhugsunar um hvað það er mikilvægt að hafa gaman af því sem maður er að gera og að velja sér viðhorf sem vænlegt er til árangurs. Hún byrjaði á því að segja eftirfarandi brandara vegna þess að hún er dönsk og talar ekki alveg kórrétta íslensku.
Íslendingur og Dani hittust á bar og drakk Íslendingurinn ótæpilega eins og hans var von og vísa. Dananum leiddist þetta og hafði orð á því honum fyndist Íslendingurinn orðinn ógeðslega fullur. Íslendingurinn játti því og sagði: En kæri vinur á morgun verð ég orðinn eðlilegur aftur en þú verður ennþá Dani!!
Og nú ætlum við að vera alveg ofboðslega skemmtileg í vinnunni í vetur, dansa conga í frímínútum, henda hlaupköllum hvert í annað og mæta alltaf með rétt viðhorf á morgnana, brosandi út að eyrum og ekkert væl um léleg laun, erfiða nemendur eða annað sem við venjulega látum fara í taugarnar á okkur. En svo er annað mál hvernig við verðum þegar við komum heim til okkar heittelskaða á kvöldin, kannski verðum við þá búin að fá nóg af skemmtilegheitunum og verðum að fá útrás á fjölskyldumeðlimunum. En sem betur fer hef ég þó alltaf spilaklúbbinn af og til til að skeyta skapi mínu á.
Í gærkvöldi var spilað í Álmholtinu hjá Önnu Eym. Þar var kínverskt þema í gangi og var undirrituð klædd í kínverskan slopp strax við komu. En ekki veit ég hvort geitungurinn sem læddi sér í sherryglasið hennar Önnu var kínverskur eður ei en alla vega beit hann vel frá sér þegar Anna ætlaði að stela sherryinu frá honum. Upphófust mikil læti sem geitungurinn slapp ekki lifandi frá en sem betur fer gerði Anna það þótt um tíma minnti hún mjög á eina af okkar elstu teiknimyndapersónum hann Andrés önd. Eftir leit á netinu um geitungabit var vel fylgst með hvort hún fengi tárabjúg, nefrennsli eða andþyngsli en sem betur fer bar ekki á slíku. En spilamennskan gekk ekki sem skyldi hjá henni og gott að geta kennt æðvængjunni um. Ég slapp sem betur fer við geitunginn sem elti mig um allan garðskálann og reyndi að ná frá mér sherryinu mínu og dugði ekki einu sinni að ota að honum baneitruðum sígarettureyk sem hingað til hefur þó reynst ágætis vörn gegn ýmsum aðskotadýrum.
Það sem eftir lifði kvölds skemmtum við okkur ágætlega, sumir betur en aðrir, þ.e.a.s. þeir sem unnu, þeir tapsáru sleiktu sárin fram eftir nóttu en hugguðu sig við að tap í spilum vísar á óendanlega hamingju í ástamálunum.
Í dag fór ég á fund hjá Maggý frænku minni en þar var verið að skipuleggja för okkar og siggu á Grund á danska daga í Stykkishólmi en þar ætlum við gerast sölukonur miklar, selja ullarsokka, kleinur og kaffi en samt aðallega skemmta okkur og tala dönsku út í eitt. Skemmtilegir gestir fá svo kannski gammel dansk og vísnasöng á bak við. Var það ekki þannig hjá dönsku kaupmönnunum í gamla daga? Salan fer fram í húsinu hans Magna (Maggýjarsonar)og erum við með sérstakt leyfi frá sýslumanni enda Magni lögga og leigjandi hússins líka lögga. Við verðum því undir sérstakri lögregluvernd allan tímann. Brandur fær að koma með og vera kaffikarl og sendill eða hvað annað sem okkur dettur í hug að munstra hann í, hann er öllu vanur a.m.k. síðan hann giftist mér. Nóg að sinni kæru lesendur ef þið hafið nennt að lesa svona langt.

Wednesday, August 15, 2007

15. ágúst Sumarleyfi lokið

Þá er sumarleyfinu lokið og fyrsti vinnudagurinn á enda. Alltaf gaman að hitta vinnufélagana aftur en þvi miður er vinkona mín og yfirmaður í sérkennslunni hún Kristín Björk búin að ráða sig sem skólastjóra vestur á Snæfellsnesi. Ef enginn sækir um stöðuna hennar verð ég líklega að taka við og það er svo semengin óskastaða því mér lætur betur að sinna bara minni kennslu og þurfa ekki að hafa áhyggjur af öðrum en sjálfri mér. Annars er allt gott og blessað, enn einn sólskinsdagurinn í viðbót á þessu sólríka sumri og allir glaðir og kátir. Við fórum í Skorradalinn um síðustu helgi. við tíndum slatta af bláberjum og nutum svo bara lífsins laus við allt stress. Við buðum svo Maggý og vinum okkar Kollu og Jóni í mat á mánudagskvöldið. Þurftum að koma út lambalæri sem var búið að bíða í ísskápnum síðan um Verslunarmannahelgi eftir að vera borðað. Á eftir var skyr með bláberjum og rjóma vo þjóðlegra gat þetta ekki verið.
Nú er bara að fara ða undirbúa sig fyrir næstu helgi en við Maggý ætlum að fara á danska daga í Stykkishólmi, búa heima hjá Magna og selja þar ullarsokka og kleinur. Það verður örugglega mikið fjör eins og alltaf þegar Maggý er annars vegar.
Í kvöld verður spilað hjá Önnu Eymunds í Álmholtinu svo það er nóg að gera.

Tuesday, August 14, 2007

Sú gamla byrjuð að blogga

Þá er gamla konan byrjuð að blogga. Alltaf gaman að læra eitthvað nýtt. Síðasti dagur sumarfrísins í dag og ennþá sumar og sól og ég búin að vera innipúki í allan dag, bjó til berjasultu, saumaði út og tók á móti gestum. Þetta sumar hefur verið einstakt og mjög skemmtilegt.