Tuesday, October 28, 2008

Og tíminn líður hratt á útrásaröld...

Sigurður Helgason skólastjórinn minn frá Laugargerði er látinn 78 ára gamall. Hann hefur alltaf verið mér mjög kær og betri fyrirmynd var ekki hægt að fá á fyrstu árum skólagöngunnar. Það er ekki tilviljun hvað margir úr mínum bekk urðu kennarar og margir hafa reynt fyrir sér sem skólastjórar. Við bárum mikla virðingu fyrir honum, hann þurfti ekki að hækka sig til að við hlustuðum, hann skammaðist aldrei og talaði þannig að mark var á því tekið. Svo gat hann leikið við okkur og skemmt sér með okkur og ekki minnkaði virðingin við það.
Fyrir mér var hann hátt yfir aðra hafinn og þegar ég fullorðnaðist og uppgötvaði að hann var mannlegur eins og við hin og gerði mistök eins og aðrir þá var svolítið erfitt að viðurkenna það í fyrstu. Með auknum þroska lærði ég það að enginn er fullkominn og allir eiga sínar veiku og sterku hliðar en við elskum þá ekki minna fyrir það. Blessuð sé minning hans.
Heill mánuður liðinn síðan ég skrifaði síðast. Lítið um að vera í mínu lífi, kannski sem betur fer. Vinn og sef og hef það bara ágætt. Fór reyndar til Akureyrar í tvo daga. Lét mig hafa það að fara á þing skólastjórnenda en ég tilheyri víst þeim hópi í augnablikinu, borga alla vega félagsfjöldin þangað. Það er alltaf gott að koma til Akureyrar og gista á KEA sem ég hef reyndar ekki gert áður. Hélt ég þekkti engan en hitti svo töluvert af fólki frá gamalli tíð, gamla bekkjarfélaga úr Kennó og gamla kunningja frá bæði Ólafsvík og Hólmavík. Stundum gott að hafa búið víða og kynnst mörgu góðu fólki.
Ég var í vetrarfríi um liðna helgi + laugardag og mánudag. Fór í algjöra slökun heima hjá mér, fór varla út fyrir dyr og aldrei þessu vant leið mér bara vel í félagsskap sjálfrar mín og leiddist ekkert. Þreif, þvoði, prjónaði og las til skiptis og naut þess að vera til.
Reyndar hef ég tekið stórt skref í átt til bættrar heilsu, hætti að reykja fyrir hálfum mánuði og þakka það heimi læknavísindanna og heimasætunni sem hefur verið afskaplega dugleg að halda að mér upplýsingum sem hún sogar í sig í hjúkrunarnáminu. Hún veit orðið allt um skaðsemi reykinga og vill mjög gjarnan eiga mömmu sína eitthvað áfram án súrefniskúts.
Í dag byrjaði ég svo í Rope Yoga sem ég hélt að væri svona frekar létt líkamsrækt fyrir þá sem eru lítið fyrir að hreyfa sig. Annað kom á daginn og er strax farin að finna fyrir aumum kviðvöðvum og get verið glöð með það, þeir eru þá alla vega til staðar ennþá einhvers þarna þótt djúpt sé á þeim. Ég ætla að halda galvösk áfram ef ég get staulast í næsta tíma og kannski kemst ég í kjólinn fyrir jólin.
Ég ætla ekki að tjá mig neitt um það fjármálahrun sem hér hefur dunið yfir, læt öðrum það eftir sem hafa meira vit á. Verð samt að segja að ekki kom mér þetta á óvart, er búin að bíða eftir þessum ósköpum í svona tvö ár. Brandur er til vitnis um það enda afskaplega stoltur af því að eiga svona gáfaða konu sem sá þetta allt fyrir. Verst að hún var ekki gáfaðri en það að ekki gerði hún neitt til að sýna þeim sem stjórna hvað þeir væru afskaplega vitlausir að halda að þessi smáþjóð gæti bara allt í einu baðað sig í milljörðum og keypt allt sem hana lysti út á kredit. Við létum líka leiða okkur með í dansinn og keyrum nú um á þessari fínu myntkörfu en hún dugar okkur kannski næstu 20 árin alla vega meðan launin dugar fyrir afborgunum og við fáum einhver laun. Nú ef ekki þá gefum við hann bara einhverjum bláfátækum auðmanni og flýjum til Vesturheims. Leitum á náðir ættingjanna sem voru svo heppnir að forfeður þeirra lögðu á sig að flýja þáverandi kreppu og búa sér til nýtt líf vestan hafs. Ekki veit ég hvort það líf var auðvelt, alla vega sneri afi minn til baka, konu- og barnalaus, og fékk sér nýja konu hérna heima, hana ömmu mína og hélt áfram baslinu hér á sinni heittelskuðu móðurjörð. Fyrri eiginkonan settist að í Vesturheimi með sínar fimm dætur og lítið meira veit ég um þeirra hafi. en ég er þakklát afa mínum fyrir að halda tryggð við ættjörðina því annars sæti ég ekki hér og skrifaði.