Ósköp lítið að skrifa núna. Ég geri því miður lítið annað en að vinna og liggja svo heima í leti. Brandur er úti á sjó og ég hef ekki farið út fyrir dyr alla helgina. Bara setið og prjónað pínulitla sokka og vettlinga á börnin hennar Vigdísar Ernu ,vinkonu hennar Snædísar ,og lesið inn á milli. Það var reyndar spilaklúbbur hjá Ninnu á mánudaginn var og ég var næstum því búin að vinna í fyrsta skipti í langan tíma en tókst að klúðra því með því að henda út vitlausu spili. Það er alveg víst að þetta er góð æfing í því að tapa að vera í þessum spilaklúbb en ég neita að trúa því að það hafi eitthvað með gáfur að gera, nema kannski þetta síðasta.
Ég er farin að læra að dansa salsa hjá Heiðari Ástvalds. Enda vinnuvikuna á því að mæta í Foldaskóla með nokkrum samkennurum og dansa úr mér stressið og áhyggjurnar. Skreiðist svo heim, búin í fótunum og upp í sófa.
Ég fékk tvo nýja starfsmenn á föstudaginn, gamlan nemanda úr Mosó sem er þroskaþjálfi og kennara sem einníg býr í Mosó. Eftir mikla starfsmannaeklu í allan vetur er þetta mjög gott, alla vega þegar ég verð búin að koma þeim inn í starfið.
Nú er bara vika í páskafrí og það verður gott að slaka á í Norge og láta stjúpsoninn dekra við okkur eins og honum einum er lagið en hann er ótrúlega líkur föður sínum í því.